Handbolti

Nef­mæltur Einar „stór­kost­legur“ eftir „ógeðs­lega“ daga í ein­angrun

Sindri Sverrisson skrifar
Einar Þorsteinn Ólafsson átti magnaða innkomu gegn Ungverjum í gærkvöld.
Einar Þorsteinn Ólafsson átti magnaða innkomu gegn Ungverjum í gærkvöld. Vísir/Vilhelm

Einar Þorsteinn Ólafsson segist aldrei á ævinni hafa verið eins slappur eins og dagana áður en hann mætti Ungverjum í gær og sló í gegn. „Stórkostlegur,“ sögðu sérfræðingarnir í Besta sætinu og dásömuðu samvinnu hans og Elliða Snæs Viðarssonar.

Rætt var um Einar Þorstein, óvæntu stjörnuna í sigrinum sæta í gær, í Besta sætinu sem hlusta má á hér að neðan. Einnig er hægt að finna þáttinn á hlaðvarpsveitum.

Þeim Einari Jónssyni, Ásgeiri Erni Hallgrímssyni og Stefáni Árna Pálssyni leist ekki á blikuna í gærkvöld, þegar Elvar Örn Jónsson fór meiddur af velli og Ýmir Örn Gíslason fékk svo rautt spjald. Varnarparið farið í hnífjöfnum hörkuleik.

„Svo bara gerast töfrar eins og hafa verið að gerast á þessu móti. Elliði fer í þristinn [miðja vörnina] og Einar Þorsteinn kemur inn á. Hann byrjaði skelfilega, fyrstu tvær þrjár varnirnar, og þeir voru bara að finta hann upp úr skónum. Svo er hann bara STÓRKOSTLEGUR. Mér fannst hann rosalegur,“ sagði Einar Jónsson.

Efaðist sjálfur um að hann fengi að spila

Frammistaða nafna hans, Einars Þorsteins, er ekki síður athyglisverð í ljósi þess að hann hafði verið í einangrun á hótelherbergi í fimm daga á undan, vegna veikinda, og var enn nefmæltur þegar hann talaði við Vísi eftir sigurinn í gær.

„Heilsan? Hún er á uppleið. Ég held að það sé hægt að segja það. Þessir seinustu dagar eru búnir að vera ógeðslegir. Einn inni í herbergi, einangraður og var ekki viss hvort ég myndi endilega fá að vera með í hóp í dag, en einhvern veginn endaði þetta svona. Núna er allt betra,“ sagði Einar Þorsteinn.

„Maður veit ekkert hvernig heilsan er á honum [Einari Þorsteini] en þeir Elliði voru bara… við fengum á okkur níu mörk í seinni hálfleik!“ sagði Einar Jónsson og Ásgeir Örn tók þá við:

„Þeir voru eiginlega miklu betri sem par en Ýmir og Elvar. Þeir harmóneruðu helvíti vel. Árásirnar frá þeim, Fazekas og Hanusz, sem við vorum búnir að vera í tómu veseni með, þar sem Ýmir var oft mjög týndur og Elvar í brasi… þetta sáum við bara ekki í seinni hálfleik. Einar er mikið sneggri á löppunum, les þetta örlítið betur, og gerði þetta geðveikt vel. Hann fékk líka tækifæri á að vera dálítið framar og var oft kominn upp á 14 metra, og vissi bara hvar árásin var að fara að koma.“

Umræðuna má heyra í heild sinni í hlaðvarpsþættinum Besta sætinu á helstu hlaðvarpsveitum sem og í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

„Mér líður bara ömurlega“

Elvar Örn Jónsson var að vonum niðurlútur á hóteli íslenska landsliðsins þegar fjölmiðlamenn bar að garði í hádeginu.

„Beint flug til Köben og nokkrir veikindadagar“

Vel lá á Viktori Gísla Hallgrímssyni eftir eins marks sigur Íslands á Ungverjalandi, 23-24, í F-riðli á Evrópumótinu í handbolta í dag. Viktor átti stórleik og varði 23 skot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×