Skoðun

Öxlum á­byrgð og segjum satt

Pétur Marteinsson skrifar

Ég hef í prófkjörsbaráttunni gert takmarkað traust borgarbúa til borgarstjórnar að umræðuefni og það er ein ástæða þess að ég gef kost á mér í oddvitasæti Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ég tel einfaldlega að hægt sé að gera mun betur og að borgarbúar verðskuldi að geta treyst borgarfulltrúum sínum.

En hvernig ávinnur maður sér slíkt traust?

Ég tel að kjörnir fulltrúar ávinni sér traust með því að tala skýrt, með því að styðja ötullega við þau tækifæri sem borgarbúar sjá í sínu borgarumhverfi og afneita ekki þeim vandamálum sem þeir upplifa í sínu daglega lífi. Borgarbúar þurfa að þekkja sína kjörnu fulltrúa og vita að þeir standi með þeim.

Tölum skýrt

Sem oddviti Samfylkingarinnar vil ég tala skýrt um mál sem stuðla að jöfnuði og jafnrétti, ríkri fjölmenningu og þróun borgarinnar í átt að bættri lýðheilsu og samveru fólks. Ég tel að við, fulltrúar Samfylkingarinnar, getum gert betur í að tala gegn sjónarmiðum ójöfnuðar og sundrungar sem í síauknum mæli er haldið á lofti af væng stjórnmálanna lengst til hægri.

Þessi sömu öfl hafa í borgarstjórnartíð Samfylkingarinnar háð stífa baráttu gegn Reykjavíkurborg og reynt að telja okkur trú um að borgin okkar sé slæm, illa rekin og hættuleg. Ekkert er fjær sanni. Reykjavík er stórkostleg borg með óendanlega möguleika til að verða enn betri. Þó að vissulega megi alltaf gera betur er borgin að mörgu leyti vel rekið sveitarfélag og er líklega ein öruggasta höfuðborg heims. Ég mun tala skýrt um þetta – ég mun tala borgina okkar upp.

Það breytir því ekki að hér eru vandamál sem þarf að leysa.

Tökumst á við vandann

Það grefur undan trausti þegar upplifun foreldra leikskólabarna er sú að ekki sé hlustað og ekki sé tekið fast á málum. Þessir foreldrar þurfa heldur ekki á því að halda að þeim sé ítrekað lofað töfralausnum handan við hornið sem síðan bregðast. Þau þurfa að finna að kjörnir fulltrúar þeirra séu með þeim í þessu verkefni, sjái vandann og hafi áhuga á að leysa hann til framtíðar.

Það grefur undan trausti að ekkert sé gert í vanda þeirra sem sitja allt að klukkutíma í bíl á leið til vinnu og annan klukkutíma til að komast heim. Það þarf að horfast í augu við þau mistök sem hafa verið gerð í skipulagi borgarinnar og finna raunhæfar samgöngulausnir til skemmri tíma en einnig að hafa langtímasýn á borgarskipulag sem kemur í veg fyrir þennan vanda.

Það grefur líka undan trausti að afneita ábyrgð á öðrum mistökum sem hafa verið gerð í borgarskipulagi, svo sem við „græna gímaldið“. Öxlum ábyrgð og gerum betur.

Þjónum borgarbúum

Borgarbúar vilja þekkja sína kjörnu fulltrúa og finna að þeir standi með íbúum og borginni, að þeir axli ábyrgð, segi satt og hafi skýra, jákvæða og lausnamiðaða sýn um framhaldið.

Ég býð mig fram í það verkefni að þjóna borginni og íbúum hennar á þennan hátt.

Höfundur er rekstrarstjóri og frambjóðandi í 1. sæti á lista Samfylkingar fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir,Eyrún Fríða Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×