Skoðun

Hættið að rukka van­greiðslu­gjald!

Breki Karlsson og Runólfur Ólafsson skrifa

Á bílastæðum sem nota þjónustu Checkit.is eru engin vangreiðslugjöld innheimt. Þar undir eru meðal annars Þingvellir, Seljalandsfoss, Höfðatorg, Selafjaran og Hafnarhólmi. Ef ökumaður gleymir eða vanrækir að borga fyrir bílastæði fær hann senda kröfu í heimabanka. Upphæðin er sú hin sama og hann hefði átt að borga fyrir notkun stæðisins, ásamt 130 króna bankakostnaði. Það er allt og sumt. Ekkert vangreiðslugjald, engar hótanir.

Samkvæmt okkar upplýsingum skila greiðslur sér allt að 100%. Fólk er nefnilega tilbúið til að borga fyrir veitta þjónustu.

Fæstir sætta sig aftur á móti við óútskýrð refsigjöld sem birtast fyrirvaralaust í heimabanka, dráttarvexti og innheimtukröfur fyrir einfaldar yfirsjónir eða gleymsku vegna afnota bílastæða. Þannig vinna Parka, Myparking, Sannir landvættir, Green parking og Autopay. Útbreidd gremja ríkir vegna þessara vinnubragða og stjórnvöld undirbúa nú aðgerðir..

Sátt myndi ríkja um Checkit.is leiðina. Engin vangreiðslugjöld, engar hótanir. Hið eina rétta er því að hætta að rukka vangreiðslugjöld.

Skuggahlið vangreiðslugjaldsins

Vangreiðslugjaldið er eftirlíking af bílastæðasektunum hjá Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélögum sem eiga sér skýra stoð í lögum. Lög heimila ekki að einkaaðilar beiti sektum. Til þess að innheimta vangreidd gjöld styðjast heiðvirð fyrirtæki við innheimtulög. Vangreiðslugjald bílastæðabraskaranna er miklu hærra en innheimtulög leyfa. Þau er óhæfilega há og í engu samræmi við meint tjón fyrirtækjanna eða kostnað þeirra, heldur eru þau lögð á til tekjuöflunar. Gjöldin eru því ósanngjörn og andstæð góðum viðskiptavenjum.

Aðeins var rukkað fyrir bílastæði við 6 ferðamannastaði fyrir fjórum árum. Sölumenn Parka/Myparking og Öryggismiðstöðvarinnar (Sannir landvættir og Green parking) hafa hins vegar herjað af krafti á landeigendur við aðra ferðamannastaði. Sölumennirnir hafa boðið ókeypis uppsetningu á gjaldtökubúnaði og fría innheimtu á stæðisgjöldum. Í staðinn fá bílastæðafyrirtækin hlut í stæðisgjaldinu og allt vangreiðslugjaldið. Fáir landeigendur slá hendinni á móti þessu. Afleiðingin er sú að nú er gjaldskylda á 44 bílastæðum á ferðamannastöðum, þar af eru 6 hjá Checkit.is.

Vangreiðslugjald er óþarft, það er ósanngjarnt og á mjög gráu svæði lagalega og tekjulind í sjálfu sér. Án hinnar ágengu sölumennsku má leiða líkur að því að sátt ríkti hér á landi um greiðslur fyrir afnot bílastæða þar sem þeirra er raunverulega þörf.

Við skorum á ofangreind fyrirtæki að hætta tafarlaust að leggja á vanskilagjöld! Jafnframt skorum við á eigendur bílastæða að skipta aðeins við fyrirtæki sem ekki leggja á vangreiðslugjöld!

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.




Skoðun

Sjá meira


×