Um­fjöllun: Tindastóll-Valur 99-108 | Fór illa með gömlu fé­lagana í Síkinu

Arnar Skúli Atlason skrifar
Keyshawn Woods var afar öflugur á móti sínum gömlu félögum.
Keyshawn Woods var afar öflugur á móti sínum gömlu félögum. Vísir/Hulda Margrét

Valsmenn héldu sigurgöngu áfram þegar þeir sóttu sigur í Síkið á Sauðárkróki í kvöld í fyrstu umferð Bónusdeildar karla í körfubolta á nýju ári. 

Keyshawn Woods tryggði Valsmönnum framlenginguna og skoraði alls 28 stig á móti sínum gömlu félögum. Þetta var sjöundi sigur Vals í röð og þeir hafa ekki tapað með Woods innanborðs.

Stólarnir töpuðu fyrsta heimaleik sínum í vetur en liðið var búið að vinna fyrstu fimm leiki sína í Síkinu.

Valur sigraði Tindastól í framlengdum leik á Sauðárkróki í kvöld en lokatölur leiksins voru 99-108. Leikið var fyrir troðfullu Síki og fjörið í húsinu gríðarlegt.

Það voru gestirnir frá Hlíðarenda sem byrjuðu betur í kvöld og settu hvert stigið á fætur öðru á töfluna og fátt var um svör frá liði Tindastóls. Callum Lawson var að reyna sínum fyrri félögum erfiður. Um miðjan fjórðunginn náðu Tindastóll að svara aðeins fyrir sig en það var ekki nóg því Valur leiddi með 17 stigum þegar fjórðungurinn kláraðist en staðan eftir hann var 14-31.

Tindastóll byrjaði betur í öðrum leikhluta og fór að herða vörnina en sóknarleikurinn var heldur stirður áfram. Það fór að hægja á Valsmönnum í öðrum leikhluta. Tindastóll minnkaði muninn hægt og bítandi. Taiwo Badmus og Ivan Gavrilovic voru öflugir í liði Tindastóls í leikhlutanum og þegar honum lauk voru Stólarnir búnir að minnka þetta niður í 4 stig og staðan í hálfleik 44-48.

Tindastóll hélt áfram að vera sterkari aðilinn í upphafi seinni hálfleiksins og Taiwo hélt áfram að setja stig á töfluna. Tindastóll komst yfir um miðjan fjórðunginn en Keyshawn Woods var öflugur fyrir Valsara og hélt þeim inn í þessu. Hann skoraði einmitt tveggja stiga körfu og minnkaði þetta niður í 5 stig fyrir síðasta fjórðunginn en staðan var 66-61 fyrir hann.

Í fjórða leikhlutanum skiptust liðin á körfum. Tindastóll leiddi en Valur var alltaf nálægt. Taiwo hélt áfram að vera öflugur hjá Tindastól. Keyshawn og Callum leiddu þetta fyrir Val. Undir lok leiksins munaði 2 stigum á liðunum en staðan var þá 88-86 þegar Valsmenn brutu á Júlíus Orra þegar 12,7 sekúndur voru eftir af leiknum. 

Hann fór yfir og tók vítaskot og hefði geta komið þessu í tveggja körfu leik en hann klikkaði öðru vítinu. Valur fékk annan séns og klúðraði skotinu og brotið var á Ragnari Ágústssyni. Hann hefði getað klárað vítið með því að setja annað vítið ofan í en hann klúðraði báðum vítunum. Valur fékk þriðja tækifærið til að jafna leikinn og setja hann í framlengingu. Það var Keyshawn Woods sem setti hlaupandi þrist yfir 2 varnarmenn Tindastóls og kom þessu í framlengingu.

Í framlengingunni voru Valsmenn bara miklu betri og keyrðu yfir Tindastól og þeir sáu aldrei til sólar í framlengingunni. Valsmenn skoruðu 19 stig í framlengingunni og unnu samfærandi sigur í framlengingunni. Leikurinn endaði 99-108 í hágæða körfuboltaleik.

Atvik leiksins

Klárlega þriggja stiga karfan hjá Keyshawn Woods þegar hann jafnaði leikinn og skyldi 0,5 sekúndur eftir á klukkunni og kom þessu í framlengingu.

Stjörnur

Hjá Tindastól var Taiwo Badmus langsprækastur á báðum endum vallarins. Hann skoraði 30 stig og tók 12 fráköst.

Hjá Val voru Keyshawn Woods og Callum Lawson fáránlega góðir, Keyshawn Woods með 29 stig og Callum Lawson með 26 stig.

Dómararnir

Kristinn Óskarsson steig ekki feilspor í dag og hans aðstoðarmenn voru frábærir líka.

Stemmingin og umgjörð

Úrslitakeppnissteming í Síkinu í kvöld og fullt upp í rjáfur.

Arnar Guðjónsson er þjálfari Tindastólsliðsins.vísir/Anton

„Þetta var rosalegur körfuboltaleikur“

Arnar Guðjónsson þjálfari Tindastóls var svekktur að leik loknum í kvöld.

„Þetta var rosalegur körfuboltaleikur. Eins og þetta var í fyrri umferðinni þá settum við körfu til að vinna í restina. Nú setja þeir körfu til að jafna og taka þetta svo í framlengingunni. Þeir refsuðu okkur og gerðu það mjög vel.“

Tindastóll var með unninn leik en Valur jafnaði með lokaskoti leiksins.

„Það var svekkjandi að ná að sigla þessu heim. Þeir náðu að skora svolítið auðveldlega á kafla í fjórða leikhluta þegar við vorum komnir í 6 til 8 stiga forskot. Við hleyptum þeim hratt inn í þetta aftur, það var svekkjandi.“

Stólarnir áttu ekki séns í framlengingunni.

„Við vorum lélegri. Það datt svona botninn úr þessu þegar komið var í framlenginguna. Þeir gengu á lagið og liðum vel. Þeir opnuðu strax á körfu í horninu, bara vel gert hjá þeim.“

Finnur Freyr Stefánsson er þjálfari Vals.Vísir / Diego

„Frábært skot sem Keyshawn setur niður“

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, var gríðarlega ánægður með sigur sinna manna í Síkinu í kvöld.

„Gríðarlega sáttur að hafa einhvern veginn náð að harka þennan sigur út,“ sagði Finnur Freyr.

Þetta var háklassa leikur í kvöld og bæði lið gjörsamlega frábær.

„Við komum sterkir inn í leikinn. Svo vorum við að gefa þeim mikið af vítum frá því í öðrum leikhluta og út leikinn. Þeir skora mikið af vítalínunni. Í þriðja og fjórða leikhluta erum við mikið að skapa opnum skotum sem við erum vanir að setja. Þeir komust lítið á vítalínuna og þurftum að hafa mikið fyrir körfunum þeirra. Tindastóll er með hörkulið, gríðarlega vel þjálfað og mannað og með sterkan heimavöll, þannig það var gott að vinna,“ sagði Finnur.

Valur kom inn í framlenginguna og keyrði yfir Stólana sem áttu engin svör.

„Þeir voru komnir með leikinn og áttu bara að vinna hann miðað við hvernig staðan var. Það er bara bjútíið við hvernig körfubolti er. Ég man eftir einum leik á Hlíðarenda sem ég var hinum megin. Þetta er bara partur af sportinu,“ sagði Finnur.

„Frábært skot sem Keyshawn setur niður. Hann var búinn að missa eitthvað mikið af opnum skotum og fínt að setja eitthvað svona skot til að jafna þetta. Bara ánægður með að við héldum kúlinu og héldum áfram. Bullandi villuvandræði og allir leikmenn komnir með 4 eða 5 villur þarna undir lokin. Bara frábært að við náðum að halda áfram.,“ sagði Finnur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira