KA/Þór - Valur 23-30 | Ó­trú­legur viðsnúningur gestanna

Árni Gísli Magnússon skrifar
_DSF5001
vísir/Anton

Valur tryggði sér toppsæti Olís deildar kvenna í handbolta yfir hátíðarnar með sjö marka sigri á KA/Þór fyrir norðan nú í kvöld. Lokatölur 23-30 eftir að norðankonur höfðu leitt með fjórum mörkum í hálfleik.

Liðunum gekk illa að finna netmöskvana í upphafi leiks en heimakonur tóku fljótlega við sér og var staðan 4-1 eftir átta mínútna leik.

KA/Þór byrjaði leikinn í sjö á sex og spiluðu megnið af hálfleiknum á þann hátt sem virtist virka ágætlega en sóknarleikurinn var þó ekkert til að hrópa húrra fyrir hjá hvorugu liðinu til að byrja með.

Heimakonur héldu gestunum þremur til fjórum mörkum frá sér nær allan hálfleikinn og var vörnin virkilega góð og að auki varði Matea Lonac átta bolta í markinu en Valskonur virtust ráðalausar í sóknaraðgerðum sínum sem voru hægar og fyrirsjáanlegar.

Tinna Valgerður Gísladóttir skoraði af vítalínunni þegar leiktíminn var liðinn og tryggði KA/Þór fjögurra marka forystu inn í síðari hálfleik, staðan 13-9.

Allt annað Valslið mætti til leiks í síðari hálfleik og var engu líkara en að töfravatnið úr Space Jam hafi verið á boðstólnum inni í klefa.

Lydía Gunnþórsdóttir opnaði síðari hálfleik með marki fyrir heimakonur en Valskonur skoruðu svo í nánast hverri sókn eftir það og eftir 43. mínútna leik komust þær yfir í fyrsta skipti í leiknum, 18-17.

Þór/KA hélt áfram að spila mikið sjö á sex sem skilaði Valskonum þónokkrum ódýrum mörkum yfir allan völlinn og virtist allur vindur í KA/Þór á þessum tímapunkti og jók Valsliðið jafnt og þétt forskot sitt.

Valskonur skoruðu 21 mark gegn tíu hjá KA/Þór í síðari hálfleik og unnu að lokum öruggan sjö marka sigur. Lokatölur 23-30.

Atvik leiksins

Ekkert eitt frábært atvik sem er hægt að taka út en það var nokkuð skondið á 27. mínútu þegar Valskonur voru í langri og erfiðri sókn og höndin komin upp, þá tók Lovísa Thompson algjörlega máttlaust skot í átt að marki og var í raun eins og hún nennti ekki að kasta boltanum í markið og væri að mótmæla skelfilegum sóknarleik síns eigin liðs.

Stjörnur og skúrkar

Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir klikkaði á fyrstu tveimur skotum sínum í dag en skoraði úr hinum níu og endaði með níu mörk úr ellefu skotum.

Lovísa Thompson og Mariam Eradze komu þar á eftir með fjögur mörk hvor og þá var Mariam einnig með ellefu lögleg stopp sem er ansi vel af sér vikið.

Hjá Þór/KA var Tinna Valgerður Gísladóttir markahæst með níu mörk en átta af þeim komu af vítalínunni úr jafn mörgum tilraunum.

Susanne Petterson skoraði sjö mörk úr tólf skotum og var í raun eina alvöru ógn liðsins sóknarlega.

Matea Lonac varði níu bolta en sjö til átta þeira komu í fyrri hálfleik þar sem hún stóð sig feykivel.

Dómarar

Vel dæmdur leikur hjá nöfnunum, nokkur ódýr víti til eða frá en ekkert til að kvarta yfir.

Stemning og umgjörð

Ég hefði viljað sjá betri mætingu í KA heimilið en þeir sem gerðu sér ferð eiga hrós skilið fyrir að láta vel í sér heyra. Umgjörðin góð að vanda.

„Ætlum að reyna vera í úrslitakeppninni“

Jónatan Magnússon, var eðlilega ósáttur við seinni hálfleikinn í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Jónatan Magnússon, þjálfari KA/Þór, var sáttur með fyrri hálfleik síns liðs en ósáttur við þann seinni eftir sjö marka tap gegn Val en norðankonur leiddu með fjórum mörkum í hálfleik.

„Það var fullstórt miðað við fannst mér gang leiksins. Við spiluðum vel í 40 og eitthvað mínútur“, undirritaður skaut þá inn að Valur hefði komist yfir í fyrsta skipti á 43. mínútu.

„Já akkúrat, mér fannst það sem við ætluðum að gera ganga vel fram að því en svo náðu þær þessum hraðaupphlaupsmörkum sem þær fengu ekki í fyrri hálfleik. Okkar plan var að reyna vera svolítið agaðar og spila aðeins hægar og það gekk upp en sjö á sex kostaði að líka að við fengum á okkur örugglega fjögur, fimm mörk á vondum tíma.“

„Þetta var svona næstum því en margt gott hjá okkur eins og ég segi. Við töluðum svolítið um það líka að svara eftir leikinn síðasta sem ég við vorum mjög ósátt með, hvernig við komum inn í hann. Komum inn í þennan leik á allt annan og betri hátt, vorum pínu klaufar að halda ekki forsytunni aðeins lengur og klaufar að gera þeim þetta svona auðvelt fyrir kannski. Þetta hefði getað verið leikur lengur allavega.“

Þór/KA tapaði stórt gegn Haukum í síðasta leik og fengu á sig 24 mörk í fyrri hálfleik þá en ekki nema níu í dag.

Var engin orka eftir í seinni hálfleik til að halda áfram að spila þessa kraftmiklu vörn?

„Mér fannst munurinn á fyrri og seinni það að við náðum að koma okkur í vörnina í fyrri hálfleik. Við náðum að enda sóknirnar okkar þannig að við náðum að koma í vörn og Matea (Lonac) var frábær hjá okkur í markvörslunni í fyrri hálfleik. Við fáum ekki sömu vörslu í seinni, líka til að mörgu leyti að þær eru að skora mörg úr þessari seinni bylgju og fyrsta tempói þannig varnarleikurinn sex á sex fannst mér heilt yfir góður þannig að það var kannski það sem er það jákvæða í þessu því við vorum mjög ósáttar við varnarleikinn okkar, eða bara leikinn okkar, síðast gegn Haukum. Þetta gaf okkur aðeins meiri trú og von í næstu leiki eftir áramót.“

Susanne Pettersen bar sóknarleik KA/Þór uppi og skoraði sjö mörk en aðrir leikmenn voru bara með eitt til tvö mörk, fyrir utan Tinnu Valgerði sem skoraði átta af sínum níu mörkum úr vítum.

Jónatan gat ekki neitað því að það þyrfti að fá framlag frá fleiri leikmönnum sóknarlega.

„Jú jú, auðvitað, sammála því. Hún náttúrulega er sú sem að við byggjum svolítið sóknarleikinn á að hún sé að opna en við gerðum það ekkert vel í dag. Við náðum ekkert að spila neitt sérstaklega úr því heldur þannig jú sammála því að við hefðum þurft að fá meira frá öðrum en Valsvörnin er öflug þannig við vorum alveg í smá vandræðum sex á sex á köflum, þess vegna vorum við að reyna spila svolítið sjö á sex og það heppnaðist að mörgu leyti en svo eins og ég segði við hefðum þurft að fá fleiri auðveldari mörk. Við lögðum samt upp með að vera ekki að keyra á þær. Við vorum aðeins of lengi að byrja að hlaupa þegar við vorum undir en planið okkar var svolítið að taka leikinn niður og það gekk eins og ég segi í tvo þriðja af leiknum.“

KA/Þór fer inn í jólafríið í sjötta sæti deildarinnar með níu stig. Jónatan fór aðeins yfir tímabilið hingað til.

„Við runnum svolítið bara blint í sjóinn í byrjun tímabils en svo byrjum við gríðarlega vel, vorum að spila vel, svo erum við bara búin að fara aðeins niður á við en við settum okkur markmið að við ætluðum að reyna vera í úrslitakeppninni sem er topp sex. Við ætluðum að tryggja sætið okkar, það er okkar markið og við erum svo sem ennþá þar en við þurfum að spila betur og ég er sannfærður um það að við náum því eftir áramót, það er planið“, sagði Jónatan að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira