Gagnrýni

Upp­hitaðir afneitunarafgangar Frosta

Kjartan Kjartansson skrifar
Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður, skrifaði bókina „Hitamál“ um loftslagsmál.
Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður, skrifaði bókina „Hitamál“ um loftslagsmál. vísir

Eftir að hafa fundið lausn á Covid-19 og peningamálum á Íslandi er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins búinn að komast að því að loftslagsvísindamenn heimsins hafi allir rangt fyrir sér um loftslagsbreytingar.

Það þarf ekki að líta lengra en til klæðaburðar yngri starfsmanna á ritstjórn Vísis til þess að sjá að jafnvel hallærislegasta tíska sem flestir töldu komna varanlega á öskuhaug sögunnar á stundum afturkvæmt.

Annað dæmi um þetta er „Hitamál“, ný bók Frosta Sigurjónssonar, fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins, um loftslagsmál sem hann gaf sjálfur út á dögunum. Í henni freistar Frosti þess að blása lífi í glæður afneitunar á loftslagsvísindum sem jafnvel þvermóðskufyllstu þumbar gáfust upp á fyrir meira en áratug.

Þeir sem hafa ánægju af vandaðri vísindamiðlun ættu að líta undan. Bókin víkur snemma að því að óvissa sé um hversu mikil inngeislun sólar er og því gæti breytt sólvirkni mögulega útskýrt hlýnandi loftslag. 

Hún versnar eftir það.

Gamlar tuggur dregnar fram

Frosti vill að lesandinn viti að hann hafni hvorki hlýnun né áhrifum koltvísýrings á loftslagið. Allt sem á eftir kemur gengur þó út á að efast um að losun manna á gróðurhúsalofttegundum sé orsök loftslagsbreytinganna og að hver sem orsökin sé þá sé alltof dýrt að gera nokkuð í því.

Þessu til stuðnings tínir Frosti til gamalkunnar tuggur: Vísindamenn séu ekki á einu máli um hversu mikil hlýnun sé af mannavöldum og hversu mikil sé náttúruleg (hún er öll af völdum manna). Loftslagslíkön sýni meiri hlýnun en orðið hefur (loftslagslíkön hafa líkt nákvæmlega eftir þróun loftslags). Ekki er hægt að spá nákvæmlega fyrir um veður nema fáa daga fram í tímann (loftslag er ekki það sama og veður).

Tíðari og ákafari þurrkar eru þekkt afleiðing hnattrænnar hlýnunar. Frosti telur að efast megi um það þrátt fyrir skýr vísindaleg gögn um annað. Myndin er frá uppþornuðu uppistöðulóni í Sýrlandi í versta þurrki þar í sex áratugi í ár.Vísir/EPA

Engin bók sem hefur það að markmiði að vefengja loftslagsvísindi getur heldur sleppt því að minnast á „litlu ísöldina“ sem er íslenskum efasemdamönnum ofarlega í huga (kalda tímabilið sem er kennt við litla ísöld var staðbundin kólnun við Norður-Atlantshaf vegna samspils ólíkra þátta en ekki hnattræn breyting).

Hefur rétt fyrir sér um orsakir loftslagsbreytinga... en ekki þessara

Frosti bendir réttilega á að loftslag jarðar stjórnist ekki af einni breytu heldur samspili sólarljóss, virkni sólar, sporbraut jarðar og möndulhalla, eldvirkni og fleiru.

Hann fer hins vegar algerlega út af sporinu þegar hann segir „Í svo flóknu kerfi er varhugavert að líta á koltvísýring sem eins konar stjórntæki fyrir hitastig jarðar.“

Náttúrulegar sveiflur í sporbraut jarðar, möndulhalla hennar og vaggi snúningsássins eru orsakir ísalda og hlýskeiða á milli sem hafa einkennt jarðsöguna undanfarnar milljónir ára. Áhrif þeirra eru aftur á móti mæld á tugum eða hundruðum þúsunda ára, ekki á nokkrum áratugum eða öldum eins og þær loftslagsbreytingar sem menn valda nú á jörðinni.NASA/DSCOVR:EPIC

Þetta kann að hljóma skynsamlega í eyrum þeirra sem ekki hafa kynnt sér heimili sitt jörðina en lýsir í raun algerri rörsýn höfundar á viðfangsefni sitt.

Þó að breytileiki í virkni sólar, eldgos og fleira hafi vissulega valdið tímabundnum breytingum á loftslagi jarðar, að breytileiki í sporbraut, mönduhalla og vaggi jarðar hafi orsakað ísaldir og hlýskeið á víxl, lítur Frosti fram hjá því að þetta séu ekki ástæður loftslagsbreytinga samtímans heldur gegndarlaus losun manna á gróðurhúsalofttegundum.

Eins og uppsláttarrit með helstu afneiturum heims

Frosti segir sjálfur að bókin innihaldi tilvísanir í tæplega hundrað rannsóknir og svipaðan fjölda annarra heimilda og að hún sé skrifuð til að varpa ljósi á nýlegar rannsóknir sem hafi ekki fengið næga athygli.

Heimildarskráin er þó kunnugleg öllum þeim sem hafa fylgst með loftslagsmálum á 21. öldinni. Hún er eins og uppsláttarrit yfir þekktustu afneitara og útúrsnúningamenn loftslagsvísinda síðustu ára: John Christy, Judith Curry, Steven Koonin, Richard Lindzen og Björn Lomborg.

Þýskur prófessor lýsti því eitt sinn í eyru undirritaðs að eðlisfræðideild háskólans hans bærust reglulega bréf frá mönnum sem teldu sig hafa afsannað afstæðiskenningu Alberts Einstein. Þessir menn ættu það yfirleitt sameiginlegt að vera verkfræðingar. Eitthvað við menntun þeirra gæfi þeim ástæðu til að ætla að þeir hefðu djúpan skilning á jafnvel óskyldustu fræðum.

Albert Einstein er ekki í heimildaskrá bókar Frosta.Vísir/EPA

Merkilegt nokk er Frosti ekki verkfræðingur. Bakgrunnur hans er í viðskiptafræði og titlar hann sig sem rekstrarráðgjafa, ekki beinlínis greinar sem undirbúa mann til þess að tileinka sér eðlis- og efnafræði lofthjúps jarðar. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Frosti telur sig vita betur en sérfræðingar á sviðum sem hann hefur ekki þekkingu á. Í kórónuveirufaraldrinum talaði hann fyrir notkun ormalyfs fyrir hesta gegn veirunni. Á árunum eftir hrun ritaði hann skýrslu um peningamál sem kom hagfræðingum spánskt fyrir sjónir.

Strámenn í hættu

Töluverð eldhætta skapast af glæfralegri notkun Frosta á strámönnum þar sem hann segir að loftslagið sé síbreytilegt og það „hætti líklega ekki að breytast þótt kolefnishlutleysi verði náð“.

Þrátt fyrir þessar hundrað tilvísanir í rannsóknir og gögn gat Frosti ekki bent á neinn sem hefði haldið því fram að loftslagið hætti að breytast ef kolefnishlutleysi væri náð. Ástæðan er enda einföld: enginn sem hefur lágmarksskilning á loftslagi jarðar hefur haldið því fram að með kolefnishlutleysi yrði komið í veg fyrir allar loftslagsbreytingar það sem eftir lifir jarðsögunnar.

Eins og Frosti og félagar hans í þvermóðsku hafa réttilega bent á hefur loftslag jarðar alltaf tekið breytingum og mun alltaf gera það. Það eru augljós sannindi, enda væri erfitt að útskýra íslenska firði ef ekki væri fyrir meiriháttar loftslagsbreytingar í fortíðinni.

Spurningin sem þeir virðast þó aldrei hafa spurt sig í framhaldinu er hvort þessi staðreynd geri það líklegra eða ólíklegra að tilraun mannkynsins að auka styrk koltvísýrings í lofthjúpnum um helming (til þessa) muni gerbreyta loftslaginu.

Það ber stöðu íslenskra fjölmiðla dapurt vitni að sumir þeirra, misvandir að virðingu sinni, hafi fjallað um skrif Frosta athugasemdalaust eins og um málefnalegt framlag til umræðu um loftslagsmál væri að ræða.

Niðurstaða

„Hitamál“ á örugglega eftir að verða haldið á lofti af úrtölumönnum loftslagsaðgerða á Íslandi um ókomin ár. Ástæðan er ekki sú að bókin færi fram sannfærandi rök gegn vísindalegri þekkingu á orsökum og afleiðingum loftslagsbreytinga, þvert á móti, heldur einfaldlega sú að hún styður málstað þeirra.

Jafnvel þó að bókin sé dæmd á forsendum slíkra úrtölumanna er „Hitamál“ þunnur þrettándi. Frosti ber þannig ekki fram neinar nýjar eða frumlegar afneitunarhugmyndir heldur endurnýtir áratugagamlar rangfærslur sem hafa verið marghraktar í gegnum tíðina.

Það jákvæðasta sem hægt er að segja um bók Frosta er að hann býður bæði upp á hana sem raf- og hljóðbók. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að trjám verði fórnað til þess að prenta út allar 160 blaðsíðurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.