Upp­gjörið: Valur - Kefla­vík 111-91 | Valur þurfti ekki að hafa mikið fyrir fimmta sigrinum í röð

Hjörvar Ólafsson skrifar
Kristófer Acox skrefinu á undan Mirza Bulic eins og Valsmenn voru gegn Keflavík í þessum leik. 
Kristófer Acox skrefinu á undan Mirza Bulic eins og Valsmenn voru gegn Keflavík í þessum leik.  Vísir/Anton Brink

Valur bar sigurorð af Keflvík, 111-91, þegar liðin áttust við í 10. umferð Bónus-deildar karla í körfubolta í N1-höllinni að Hlíðarenda í kvöld. Valur hefur nú sigrað í síðustu fimm deildarleikjum sínum.

Valsmenn voru skrefinu á undan í fyrsta leikhluta og komust 19-10 yfir um miðjan leikhlutann þegar Keyshawn Woods setti niður þriggja stiga skot. Hjálmar Stefánsson lokaði síðan leikhlutanum með þriggja stiga körfu og Valur fór með sex stiga forskot, 30-24, inn í annan leikhluta.

Leikmenn Vals juku svo forystu sína í öðrum leikhluta. Þegar leikhlutinn var hálfnaður varði Kristófer Acox skot Halldórs Garðars Hermannssonar með tilþrifum og Karl Kristján Sigurðarson setti niður þrist sem kom Val 13 stigum yfir, 42-29. Þegar liðin gengu svo til búningsherbergja í hálfleik leiddi Valur, 55-44, og útlitið gott hjá heimamönnum.

Keyshawn Woods er að koma vel inn í Valsliðið. Vísir/Anton Brink

Valsarar slógu ekki slöku við í þriðja leikhluta og Kári Jónsson kom heimamönnum 16 stigum yfir, 73-57, um miðbik leikhlutans. Sama þróun var í fjórða leikhluta og þegar upp var staðið hafði Valur betur, 111-91. 

Keflvíkingar náðu ekki upp nægilegum krafti í varnarleik sinn eða flæði í sóknarleikinn til þess að velgja Val undir uggum í þessum leik.

Valur hefur nú haft betur í síðustu fimm leikjum sínum í deildinni síðan liðið var rassskellt af toppliðinu, Grindavík, í lok októbermánuðar síðastliðnum. Góður bragur er á Valsliðinu sem spilaði feykilega sterka vörn í þessum leik og skilvirkan sóknarleik.

Valur, Keflavík og Tindastóll eru jöfn að stigum með 14 stig í öðru til fjórða sæti deildarinnar en Grindavík trónir á toppnum með 18 stig. 

Finnur Freyr Stefánsson fer yfir málin með lærisveinum sínum. Vísir/Anton Brink

Finnur Freyr: Sóknarleikurinn var flottur hjá okkur

„Mér fannst gott flæði í sóknarleiknum hjá okkur og Keyshawn Woods er að aðlagast liðinu hratt og vel sem er jákvætt. Það var sóknarleikurinn sem skilaði þessum sigri og að mínu mati eigum við helling inni á varnarhelmingnum,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, að leik loknum. 

„Tilfinningin mín í leiknum var að bæði lið væru með það bakvið eyrað að það er bikarleikur fram undan á sunnudaginn kemur. Þessi lið geta bæði spilað betur en það er kærkomið að við höfum náð að landa sigri þó svo að frammistaðan hefði mátt vera betri,“ sagði Finnur Freyr enn fremur. 

„Við misstum stóra pósta eftir síðasta tímabil og það hefur tekið tíma að finna rytmann í okkar leik. Við erum að læra inn á hvernig liðið fúnkerar best í ljósi styrkleika þeirra sem leystu þá af hólmi sem fóru og þetta er allt í rétta átt,“ sagði hann um stöðuna hjá Valsliðinu. 

„Handan við hornið er svo bikarleikur þar sem allt er undir þannig að við verðum að vera fljótir að safna orku eftir þennan leik og byrja að undirbúa okkur fyrir þann leik,“ sagði Finnur um framhaldið. 

Daníel Guðni: Vorum ólíkir sjálfum okkur að þessu sinni

„Við komumst aldrei á flug í þessum leik og vorum flatir í öllum okkar aðgerðum á báðum endum vallarins. Ég er sérstaklega óánægður með varnarleikinn. Það var sama hvað við reyndum þar, Valsmenn fundu alltaf leið að körfunni og því fór sem fór,“ sagði Daníel Guðni Guðmunsson, þjálfari Keflavíkur, ósáttur. 

„Við vorum ólíkir sjálfum okkur að þessu sinni og bæði leikmenn og þjálfarateymið áttu einfaldlega off dag. Valsmenn gengu á lagið og fóru með sanngjarnan sigur af hólmi. Við höfum verið á góðu skriði undanfarið og þetta verður að vera bara one off og svo áfram gakk,“ sagði Daníel Guðni þar að auki. 

„Ef ég á að segja alveg eins og er þá er voðalega fátt jákvætt sem ég get tekið út úr þessum leik og ég vil bara koma honum út úr systeminu sem allra fyrst. Eins og ég segi þá getum við ekki sýnt aftur svona spilmennsku í komandi leikjum. Þetta er ekki í takti við það sem við höfum verið að gera í vetur og nú þurfum við bara að finna gírinn aftur,“ sagði hann.

„Það er ekki langur tími sem við höfum til þess að dvelja við þetta tap. Við eigum bikarleik á sunnudaginn þar sem það er að duga eða drepast og það þýðir ekki að mæta svona til leiks í þann leik. Ég er fullviss um að við mætum stemmdari til leiks þá,“ sagði Daníel um komandi verkefni. 

Daníel Guðni Guðmundsson freistar þess að kveikja neista hjá leikmönnum sínum. Vísir/Anton Brink

Atvik leiksins

Kristófer Acox átti tilþrif kvöldsins þegar hann varði skot Halldórs Garðars Hermannssonar með kraftmiklum hætti. Það var á þeim tíma sem Valur var að byggja upp þægilegt forskot og gaf liðsfélögum hans byr undir báða vængi. 

Stjörnur og skúrkar

Kári Jónsson stýrði sóknarleik Vals að miklum myndarbrag en hann setti 27 stig á töfluna og var stigahæstur hjá heimamönnum. Þess utan mataði Kári liðsfélaga sína með sjö stoðsendingum.

Keyshawn Woods er svo að komast í góðan takt við samherja sína en hann skoraði 19 stig í þessum leik og hirti auk þess sex fráköst. 

Callum Lawson skilaði 17 stigum og Frank Aron Booker kom með jákvæða orku af varamannabekknum. Frank Aron skoraði 16 stig og líkt og ávallt smitaði hann liðsfélaga sína með jákvæðni sinni og baráttuanda.  

Það var enginn sem náði að standa upp úr og láta ljós sitt rækilega skína í meðalmennskunni sem Keflavíkurliðið sýndi í öllum þáttum leiksins í kvöld. 

Kári Jónsson var stigahæsti og besti leikmaður vallarins. Vísir/Anton Brink

Dómarar leiksins 

Dómarar leiksins, þeir Jóhannes Páll Friðriksson, Jakob Árni Ísleifsson og Birgir Orn Hjörvarsson stóðu sig bara með stakri prýði. Röggsöm dómgæsla þeirra færir þeim átta í einkunn. 

Stemming og umgjörð

Ágætis stemming á þessum leik og líkt og leikmenn liðanna sýndu stuðningsmenn kannski ekki sparihliðar sínar. Valsmenn voru þó léttir í lund og gaman var að sjá unga og efnilega leikmenn félagasins fá að bregða á leik í hálfleik. 

Hjálmar Stefánsson og Lazar Nikolic skiluðu góðu kvöldverki. Vísir/Anton Brink

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira