Skoðun

Markaðs­mál eru ekki auka­at­riði – þau eru grunn­stoð

Garðar Ingi Leifsson skrifar

Nýleg ákvörðun KSÍ um að segja upp markaðsstjóra og ráða engan í staðinn í sparnaðarskyni hefur vakið athygli mína. Það er auðvelt að skilja að sambandið þurfi að hagræða – íslenskur fótbolti stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum, bæði fjárhagslegum og skipulagslegum. En þegar skera á niður, þá skiptir máli hvar byrjað er. Og að mínu mati er verið að byrja á röngum enda.

Það sem gerir stöðuna enn sérkennilegri er að engin opinber tilkynning hefur komið frá KSÍ um þessa breytingu. Hér er verið að leggja niður lykilstarf sem snertir tekjur, ímynd og samskipti við þjóðina, fyrirtæki og félög – án þess að sambandið telji ástæðu til að upplýsa um það opinberlega. Í nútímasamfélagi, þar sem íþróttahreyfingar eru metnar eftir gegnsæi, fagmennsku og trausti, verður slík þögn þung.

Markaðs- og samskiptamál eru ekki aukaatriði. Þau eru burðarstoðir tekjuöflunar, vörumerkjastjórnunar og upplifunar í kringum landsliðin – og ef eitthvað er, þá er þetta svið sem ætti að efla, ekki veikja.

Þetta eru verkefnin sem halda utan um ímynd, sýnileika og samskipti við þá sem fjármagna stóran hluta starfseminnar: fyrirtækin, stuðningsfólkið og samfélagið í kringum fótboltann. Þar liggja tekjurnar – og tækifæri til enn meiri tekna.

Í mörgum öðrum löndum hefur þróunin verið þveröfug. Þar er verið að efla markaðsstarf, bæta fagmennsku og tryggja að ímynd og vara sambandsins sé sterk, nútímaleg og aðlaðandi fyrir samstarfsaðila. Samkeppnin um athygli og styrktaraðila er gríðarleg og hún einfaldlega bíður ekki eftir þeim sem ákveða að leggja lykilstöðu niður.

Það er aðeins hægt að spara upp að vissu marki – en á endanum þarf einhver að sækja tekjurnar. Að skera niður í markaðsmálum í von um sparnað er svolítið eins og að slökkva ljósin í búðinni til að spara rafmagn. Jú, kostnaðurinn lækkar aðeins – en enginn kemur inn í búðina - og án tekna er fátt sem heldur rekstrinum gangandi til lengri tíma.

Við verðum líka að spyrja:

Hver á nú að vinna að því að styrkja vörumerki íslensku landsliðanna?

Hver á að leiða samningaviðræður, miðla verðmætum og tryggja áframhaldandi stuðning fyrirtækja?

Hver á að sækja nýjar tekjur?

Og hver ber ábyrgð á því að sambandið byggi upp þá jákvæðu ímynd sem það hefur lýst yfir að það vilji endurheimta?

Ef það á að færa þessi verkefni innanhúss – þá væri allavega góð byrjun á að setja þá tilkynningu í loftið, því slík verkefni fara ekki í sjálfstýringu, þau krefjast sérhæfingar, reynslu og stefnumótandi hugsunar.

Fótboltinn er eitt sterkasta sameiningarafl sem við eigum - og ef við viljum efla íslenskan fótbolta, þá verðum við að gæta þess að ekki sé skorið niður þar sem verðmætin verða til.

Höfundur er markaðsstjóri knattspyrnudeildar FH.




Skoðun

Sjá meira


×