Skoðun

Fatlað fólk ber ekki á­byrgð á lífs­gæðum borgar­búa

Anna Lára Steindal skrifar

Þroskahjálp gerir alvarlega athugasemd við orð borgarstjóra Reykjavíkur um að til lífsgæðaskerðinga geti komið leggi ríkið sveitarfélögum ekki til aukið fjármagn vegna þjónustu við fatlað fólk. Slík framsetning er ekki aðeins villandi heldur lýsir hún fullkomlega óásættanlegum viðhorfum sem eru rót þeirrar kerfisbundnu vanrækslu sem fatlað fólk má þola.

Það er algjörlega óviðunandi að borgarstjóri láti í veðri vaka að réttindi fatlaðs fólks — lögbundin og óumdeilanleg — séu í beinni samkeppni við lífsgæði á Íslandi. Að færa ábyrgðina yfir á fatlað fólk, eins og réttindi þess séu byrði en ekki grunnforsenda mannréttinda og samfélagslegs réttlætis, er algjörlega galið.

Fatlað fólk býr nú þegar við skert lífsgæði. Það hefur þurft að bíða árum saman eftir þjónustu sem það á lögbundinn rétt á. Þessi staða er bein afleiðing pólitískra ákvarðana — ekki afleiðing tilveru fatlaðs fólks.

Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eru skýr: sveitarfélög bera ábyrgð á þjónustunni, fjármögnun hennar og framkvæmd. Þegar borgarstjóri mætir þeirri skyldu með því að stilla henni upp sem samkeppni milli réttinda fatlaðs fólks og almennra lífsgæða er það birtingarmynd úreltra viðhorfa sem hafa hindrað framgang mannréttinda og jaðarsett fatlað fólk alla tíð.

Mannréttindi fatlaðs fólks eru ekki valfrjáls útgjaldaliður sem hægt er að draga úr eftir hentugleika – og hafa aldrei verið. Um er að ræða lögbundna skyldu og grunnforsendu í samfélagi sem einkennist af réttlæti og jafnrétti.

Þroskahjálp krefst þess að borgarstjóri dragi þessi ummæli til baka og axli ábyrgð á því að leiða umræðuna með mannréttindi fatlaðs fólks að leiðarljósi. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa að standa vörð um réttindi allra en ekki að stilla réttindum fatlaðs fólks upp sem ógn við lífsgæði annarra.

Lífsgæði fatlaðs fólks hafa verið skert allt of lengi. Lífsgæði á Íslandi verða ekki bætt með því að gera fatlað fólk að blóraböggli. Þvert á móti er það forsenda lífsgæða að standa við lög og skuldbindingar um mannréttindi sem stjórnvöld hafa undirgengist.

Höfundur er framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.




Skoðun

Sjá meira


×