Margt já­kvætt en þýska stálið refsaði

Valur Páll Eiríksson skrifar
Dana Björg Guðmundsdóttir skorar eitt af fjórum mörkum sínum í kvöld.
Dana Björg Guðmundsdóttir skorar eitt af fjórum mörkum sínum í kvöld. Getty/Marijan Murat

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði með sjö mörkum á móti heimakonum í Þýskalandi, 25-32, í setningarleik HM fyrir framan troðfulla höll í Stuttgart.

Sex þúsund manna höll full af Þjóðverjum tók við stelpunum okkar þar sem þeirra beið strembið verkefni gegn heimakonum í Stuttgart í dag.

Það var ekki að sjá mikinn skjálfta í íslenska liðinu í byrjun leiks og það hóf hann af krafti. Bæði lið skoruðu til skiptis en Ísland komst 6-5 yfir þökk sé marki Elínar Klöru Þorkelsdóttur úr hraðaupphlaupi. Katrín Tinna Jensdóttir var þá öflug í byrjun leiks og skoraði þrjú mörk af línunni snemma leiks.

Tvö þeirra marka komu eftir línusendingu frá Elínu Rósu Magnúsdóttur sem var einnig sterk í byrjun, skoraði líkt og Katrín Tinna þrjú mörk úr jafnmörgum tilraunum fyrir hléið.

Eftir sjötta mark Íslands tók hins vegar við rúmlega sex mínútna kafli án íslensks marks, fimm þýsk mörk í röð komu þeim fjórum mörkum yfir, 10-6.

Stelpurnar lögðu ekki árar í bát og unnu sig aftur inn í leikinn, munurinn lengst af tvö mörk. Illa gekk þó varnarlega og þær þýsku refsuðu nánast fyrir hvert einasta klúðraða skot eða tapaðan bolta.

Smá þreytumerki og tapaðir boltar í lok hálfleiksins þýddi að munurinn var fjögur mörk í hálfleik. 18-14 staðan við hálfleiksflautið og þýskar með skotnýtingu upp á 78 prósent.

Skjálfti í þýskum um miðjan hálfleik

Þýskaland jók muninn í sex mörk í byrjun síðari hálfleiks en sleit Ísland þó ekki frá sér. Stelpurnar okkar minnkuðu muninn í þrjú mörk og fengu tvo sénsa til að minnka í tvö mörk um miðjan hálfleikinn og greina mátti skjálta í heimakonum.

Þá tók þjálfari Þýskalands leikhlé og eftir það batnaði leikur þeirra þýsku til muna og stelpurnar okkar lentu hreinlega á vegg. Þær þýsku skelltu í lás og röðuðu inn hinu megin.

Lokatölur 32-25 fyrir Þýskaland þar sem þær þýsku refsuðu með hraðaupphlaupum fyrir nánast hvern einasta tapaða bolta - sem reyndist munurinn á liðunum.

Katrín Tinna best

Katrín Tinna Jensdóttir var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður Íslands í kvöld. Hún átti fleiri stöðvanir í vörninni en restin af liðinu til samans auk þess að skora fjögur mörk í sókninni.

Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst með fimm mörk, Dana Björg Guðmundsdóttir var flott í vinstra horninu með fjögur mörk og þá var Elín Rósa Magnúsdóttir flott sóknarlega með þrjú mörk og fimm stoðsendingar.

Alls voru níu leikmenn Íslands að spila sinn fyrsta leik á HM í leiknum og má sannarlega margt jákvætt taka úr frammistöðunni en sömuleiðis hellingur sem má laga fyrir næsta leik við Serbíu á föstudaginn kemur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira