Skoðun

Er munur á trú og trúar­brögðum?

Árni Gunnarsson skrifar

Reglulega fáum við fréttir sem unnar eru úr tölum frá Þjóðskrá um að svo og svo margir Íslendingar séu skráðir utan trúar- og lífskoðunarfélaga. Að sama skapi þykir það fréttnæmt að fólk skrái síg úr þjóðkirkjunni.

Það er hins vegar fréttnæmt að mati undirritaðs að um 80% þjóðarinnar séu í dag skráð innan trúfélaga. Það er einnig áhugavert að þeir sem játa kaþólska trú og flytja til landsins skrá sig áfram í kaþólska söfnuðinn hér og kjósa að iðka trú sína í íslenska söfnuðinum. Jafnframt fjölgar enn í öðrum kristnum söfnuðum utan þjóðkirkjunnar.

Vandi þjóðkirkjunnar snýr ekki að kristnum trúarboðskap hennar, það sannar góð kirkjusókn við stórar stundir í lífi okkar. Frekar er um samskiptavanda að ræða og klaufaskap. Allt slíkt má laga.

Kristin trú hefur fylgt íslensku samfélagi frá landnámi Íslands. Áður en kristin trú var formlega samþykkt á Alþingi árið 1000 voru hér kristnir menn sem komu með og á undan fyrstu landnemunum. Trúin hefur því lagt grunninn að gildismati okkar sem byggir á náungakærleika gangvart öllum mönnum.

Trúarbrögðin hafa því miður verið túlkuð af misvitrum mönnum um aldanna rás og oftar en ekki valdið usla og átökum. Þau hafa einnig verið misnotuð í pólitískum tilgangi sem er vítavert.

Trú sem byggir á trausti er aftur á móti annar teningur en trúarbrögðin. Við megum ekki láta trúarbrögðin og misgóða túlkun á þeim trufla okkar trú.

Hrein og fölskvalaus trú á hina góðu sköpun Guðs sem birtist okkur í kristnum trúarboðskap á að vera okkar leiðarljós.

Ég hvet alla kristna einstaklinga að standa vörð um þær stofnanir kristninnar sem þeir treysta, og þó þeir kjósi að yfirgefa einn kristinn söfnuð að færa sig þá í annan. Það er ekki síður mikilvægt að ráðamenn þjóðarinnar sýni í verki að samfélag okkar byggir á kristinni trúarhefð. Þannig viðhöldum við þeirri hefð sem okkur hefur verið treyst fyrir um stundarsakir.

Minnumst þessa mikla trúararfs nú í aðdraganda jólanna.

Höfundur er guðfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×