Upp­gjörið: Kefla­vík - Álfta­nes 101-90| Kefla­vík með öflugan sigur fyrir landsleikjahlé

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Darryl Morsell leikmaður Keflavíkur
Darryl Morsell leikmaður Keflavíkur Vísir/

Keflavík tók á móti Álftanes í Blue höllinni í kvöld þegar áttunda umferð Bónus deild karla leið undir lok. Keflavík var nær allan leikinn skrefinu á undan og hafði að lokum betur með ellefu stigum 101-90.

Leikurinn fór seint af stað en það urðu smá tafir sem urðu til þess að leikurinn fór aðeins seinna af stað. Álftanes átti fyrstu stig leiksins en það var Keflavík sem sótti fyrsta áhlaupið.

Liðin voru klók að koma sér á vítalínuna í fyrsta leikhluta og voru þau þó nokkur vítin. Keflavík leiddi eftir fyrsta leikhluta með átta stigum 28-20.

Það var öllu jafnara með liðunum í öðrum leikhluta. Álftanes náði góðu áhlaupi sem þvingaði Keflavík í leikhlé til að stilla sig af. Álftanes virtist vera að nálgast Keflavík hægt og þétt en þá komu tveir þristar í röð frá heimamönnum sem sleit þá aðeins frá aftur.

Bæði lið voru svolítið að reyna erfiðar sendingar sem endaði oft með töpuðum bolta en þegar liðin gengu til hálfleiks var staðan 55-45 Keflavík í vil.

Keflavík mætti með krafti út í seinni hálfleikinn. Heimamenn voru skrefinu á undan nær allan leikhlutann. Þegar Álftanes gerði eitthvað náði Keflavík að svara því strax í næstu sókn og stundum gott betur.

Eftir þriðja leikhluta leiddi Keflavík nokkuð þægilega 82-64.

Þetta leit út fyrir að ætla að vera nokkuð þægilegur fjórði leikhluti fyrir Keflavík. Heimamenn náðu þessu í 22 stiga forskot áður en Álftanes tók leikhlé.

Eftir leikhlé kom smá neisti í gestina og þeir fóru að setja nokkra þrista og saxa á forskot heimamanna. Allt í einu var þessi örugga forysta ekkert svo örugg lengur. Álftanes náði að saxa þetta niður í níu stiga leik áður en Keflavík tók við sér aftur og stýrði öruggum sigri í höfn með ellefu stiga sigri 101-90.

Atvik leiksins

Gestirnir hótuðu endurkomu í fjórða leikhluta en tveir þristar í röð frá Keflavík slökkti í þeim neista. Hilmar Pétursson og Egor Koulechov sáu til þess.

Stjörnur og skúrkar

Egor Koulechov var öflugur í liði Keflavíkur í kvöld og skoraði 21 stig. Stigaskor Keflavíkur dreyfðist vel og spilaði liðið frábærlega sem heild.

Ade Henry Murkey var stigahæstur á vellinum með 31 stig en það dugði skammt fyrir gestina.

Dómararnir

Sigmundur Már Herbertsson, Bjarki Þór Davíðsson og Gunnlaugur Briem sáu um dómgæsluna í kvöld.

Eins og gengur og gerist er maður ekki sammála öllu sem er flautað á. Línan var að mínu mati mjög sveiflukennd en það kom ekki að sök.

Stemingin og umgjörð

Keflavík var með fan zone og skemmtikvöld eftir leik svo það var hörku stemning í Blue höllinni í kvöld. Fullt kredit á stuðningsmenn Álftanes sem létu vel í sér heyra í kvöld líka. Það heyrðist stundum meira í þeim en heimamönnum.

Viðtöl

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Keflavíkur í körfubolta.Vísir/Anton Brink

„Þegar við þurftum körfur þá komu þær“

„Virkilega ánægður með að ná í þennan sigur hérna“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Keflavíkur eftir sigurinn í kvöld. 

„Við sýndum mikla þrautseigju í þessum leik og þegar þeir komu með áhlaup þá stóðum við það af okkur og við náðum að koma þessu í tuttugu stig fyrir síðustu leikhlutaskipti“

„Eins og gerist stundum þegar það er komið svona gott forskot þá eru menn að reyna að gera kannski ekki alltof mikið eða vilja ekki gera of mikið af mistökum og vera kannski svolítið passívir í því sem þeir eru að gera og það sem hefur búið til þetta forskot“

„Að sama skapi voru Álftnesingar tilbúnir að fara sækja meira og búa til einhver læti og þeir gerðu bara vel í því og skoruðu 28 stig á okkur hérna í síðasta leikhluta gegn 17 stigum frá okkur“

„Þegar við þurftum körfur þá komu þær og ég er mjög ánægður með að ganga héðan út með tvö stig í kvöld“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson.

Kjartan Atli Kjartansson er þjálfari ÁlftanessVísir/Pawel Cieslikiewicz

„Þeir náðu að eigna sér orkuna“

„Þeir náðu að eigna sér orkuna í byrjun seinni hálfleiks fannst mér“ sagði Kjartan Atli Kjartansson svekktur eftir tapið í kvöld.

„Leikurinn var í skrítnu jafnvægi í fyrri hálfleik. Mér fannst bæði lið vera að skapa sér færi, við til að komast ennþá meira inn í leikinn og þeir til þess að slíta sig frá“

„Þeir ná svo taktinum til sín þarna í þriðja leikhluta og bjuggu til mun en svo fannst mér við gera mjög vel að koma til baka og sýna orku að ná þessu undir tíu stigin“

„Ég myndi segja að þessi kafli þarna í þriðja leikhluta þá fannst mér þeir gera vel þar“ sagði Kjartan Atli Kjartansson þjálfari Álftanes.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira