Skoðun

For­múlu fyrir sigri? Nei takk.

Guðmundur J. Guðmundsson skrifar

Þegar þessi orð eru skrifuð er um það bil hálft ár í bæjar- og sveitarstjórnarkosningar hér á landi. Mið og hægri flokkarnir eru önnum kafnir við að undirbúa sig fyrir kosningarnar en af vinstri vængnum er fátt að frétta. Það er þó margt í almennri þróun stjórnmála í nágrannalöndum okkar sem ætti að vera hvetjandi fyrir þá sem starfa á vinstri væng stjórnmálanna til að girða sig í brók og taka til hendinni. Popúlistabylgjan virðist hafa náð ákveðnum hámarki, í bili að minnsta kosti, og jafnvel vera í rénun, sókn krataflokkanna til hægri hefur nær allstaðar, nema hér á landi, endað með ósköpum eins og sjá má í Danmörku og Bretlandi og síðast en ekki síst virðist komin fram formúla sem dugar til að snúa hægri þróun undanfarinna ára við.

Fyrirmyndirnar má sækja til Kaupmannahafnar og New York þar sem vinstri öfl hafa unnið stórsigra á undanförnum vikum. Í fyrrnefndu borginni voru það rauðgrænu flokkarnir yst til vinstri og í New York hinn baráttuglaði Zohran Mamdani og Demókrataflokkurinn sem þar á bæ er töluvert til vinstri og ekki bara miðað við Bandaríkin.

Formúlan fyrir þessum glæsilegu sigrum er í raun sára einföld. Skýr vinstri stefna byggð á lágmarkskröfum sem flest venjulegt fólk getur tekið undir og taka á því sem heitast brennur á fólki með raunhæfum aðgerðum. Vandamálin virðast ævinlega vera þau sömu hvort sem er í New York, Kaupmannahöfn eða Reykjavík, ójöfnuður, húsnæðisvandi, versnandi lífskjör og heilbrigðiskerfi í ólestri. Sigurvegararnir í New York og Kaupmannahöfn settu fram skýra stefnu í þessum málum, einkum húsnæðismálunum, og það bar árangur.

Það er hins vegar svo að ef ég þekki vinstri hreyfinguna á Íslandi rétt þá er takmarkaður áhugi á slíku. Þar á bæ kunna menn best við sig þegar þeir sitja í einangruðum, valdalitlum hópum, hver á sínum donti, hreyta fúkyrðum hver í annan og skilja ekkert í af hverju þeir njóta ekki fjöldafylgis. Sumt breytist aldrei.

Höfundur er sagnfræðingur. 




Skoðun

Skoðun

Jóla­kötturinn, ert það þú?

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×