Skoðun

Hag­ræn á­hrif í­þrótta og mikil­vægi þeirra á Ís­landi

Helgi Sigurður Haraldsson skrifar

Á þingum Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélag Íslands, fyrr á þessu ári var samþykkt ályktun um að fá ríkisvaldið, með íþróttahreyfingunni á Íslandi, í þá vegferð að greina hagræn áhrif íþrótta á Íslenskt samfélag.

Þá var lagt til að eftirfarandi þættir yrðu greindir:

  1. Efnahagsleg áhrif.
  2. Félagsleg áhrif.
  3. Heilsufarsleg áhrif
  4. Samfélagslegt mikilvægi.

Stjórnvöld hafa á undanförnum árum ráðist í ýmsar útttektir, á ýmsum málaflokkum og hagrænum áhrifum þeirra, m.a menningu og listum, ferðaþjónustu, tónlistarskólum ofl. Nú finnst okkur í íþróttahreyfingunni að það sé komið að okkur. Starfsemi íþróttahreyfingarinnar er ekki lögbundin, þó hennar sé getið í íþróttalögum.Vegna þess er hreyfingin mjög viðkvæm fyrir fjárframlögum og niðurskurði til hennar. Á góðum degi er hreyfingin mærð fyrir starfsemi sína og allt það forvarnargildi og góða starf sem unnið er með börnum og unglingum. En á sama tíma er fjármagn til hennar af mjög skornum skammti og hreyfingin á barmi þess að geta haldið þessu góða starfi áfram.Þess vegna er mikilvægt að framlag hreyfingarinnar til samfélagsins sé sýnilegt, það greint og fyrir liggi óyggjandi sönnun á mikilvægi starfsemi hennar.

Íþróttir barna og unglinga snerta marga málaflokka, svo sem , heilbrigðismál, félagsmál, byggðamál ofl.Margar rannsóknir hafa staðfest, margítrekað, líkamleg, andleg og félagsleg áhrif íþrótta og hvað þær skipta miklu máli í samfélaginu. Þær hafa einnig sýnt að fjárfesting í íþróttastarfi, skilar sér margfalt til baka í sparnaði og ábata fyrir samfélagið. Tölur sem nefndar hafa verið í innlendum og erlendum rannsóknum, sýna að fyrir hverja krónu sem fjárfest er í íþróttum, skila sér að minnsta kosti 3-8 krónur til baka til samfélagsins, m.a í formi, betri heilsu, minni heilbrigðiskostnaðar, aukinnar framleiðni og sterkari félagslegrar samheldni.

Vegna þessa ítrekar íþróttahreyfingin þá ósk að ríkisvaldið komi með í þá vegferð að greina þessi hagrænu áhrif, aðstæður og áskoranir í starfseminni, til þess að byggja undir traustar forsendur í starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga. Hreyfingin rær lífróður, hvað varðar fjárhagslegan rekstur hennar og aðkomu sjálfboðaliða að starfinu. Ef ekkert verður að gert, mun þetta starf leggjast af eða færast til ríkis og sveitarfélaga. En áður en til þess kemur vill hreyfingin reyna til þrautar að ná eyrum stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, um enn nánara samstarf og fjárhagslega tryggingu, öllu samfélaginu til heilla.

Helgi Sigurður Haraldsson formaður Ungmennafélags Selfoss og stjórnarmaður í UMFÍ.




Skoðun

Skoðun

3003

Elliði Vignisson skrifar

Sjá meira


×