Handbolti

Kærastan tók eftir því að eitt­hvað var að

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elina Österli sá að eitthvað var að hjá Alexander Blonz og hringdi sem betur fer á sjúkrabíl.
Elina Österli sá að eitthvað var að hjá Alexander Blonz og hringdi sem betur fer á sjúkrabíl. @alexandreblonz

Alexander Blonz var framtíðarstjarna norska handboltans en hefur háð sína erfiðustu lífsbardaga utan vallar síðasta árið. Hann er að snúa aftur í landsliðið eftir meira en árs fjarveru.

Blonz lenti fyrst í því að hnéð fór úr liði. Svo fékk hann blóðtappa í heila. „Ég lít til baka á þetta sem erfiðan tíma sem ég hef lært mikið af. Sem ég get tekið með mér áfram í lífinu,“ segir Alexander Blonz við norska ríkisútvarpið sem fjallar um endurkomu hans í norska handboltalandsliðið.

Í desember í fyrra varð hann fyrir óhappi á æfingu þar sem néskelin fór úr lið. Það varð ljóst að hann myndi missa af heimsmeistaramótinu á heimavelli í janúar. Daginn eftir varð vont enn verra. Hann fékk blóðtappa í heila.

Greinin á vef norska ríkisútvarpsins.NRK Sport

„Maður hugsar auðvitað að svona eigi ekki að geta komið fyrir 24 ára gamlan mann. Það tók langan tíma að skilja þetta,“ sagði Elina Österli við NRK en hún er kærasti og sambýliskona Blonz. Parið var á leiðinni í háttinn þegar hún tók eftir að eitthvað var að.

Hann gat ekki talað

„Hann gat ekki talað. Hann horfði í kringum sig með augunum, þau flögruðu svolítið. Hann fékk vöðvakrampa, lá og engdist og sagði að hann fyndi ekki fyrir vinstri hliðinni,“ sagði Österlin sem hringdi á sjúkrabíl. Blonz lá á sjúkrahúsi í tíu daga. Blóðtappinn krafðist bráðameðferðar, en læknarnir náðu fljótt stjórn á ástandinu.

Engu að síður hefur hornamaðurinn, sem varð markahæsti leikmaður Noregs á Ólympíuleikunum í París 2024, ekki snúið aftur í landsliðið síðan. Hnémeiðslin hafa krafist margra klukkustunda endurhæfingar.

Tvöföld leiðindi

„Það voru tvöföld leiðindi ef hægt er að orða það þannig. Það var leiðinlegt að horfa á HM þegar ég vissi að ég hefði átt að vera með,“ segir þessi 25 ára gamli leikmaður um að missa líka af heimsmeistaramótinu

Fyrir nokkrum vikum sneri Blonz aftur á völlinn. „Ég er kominn aftur á handboltavöllinn og það hefur verið rosalega gaman,“ segir Blonz. Hann hefur líka samið við eitt besta handboltafélag heims, danska liðið Aalborg.

Þá stóð ég og grét

„Í fyrsta skipti sem hann hljóp inn á völlinn hér í Álaborg, þá stóð ég og grét og þurfti að þerra tárin,“ sagði sambýliskonan við NRK.

Alexander Blonz í leik með norska landsliðinu.EPA/SRDJAN SUKI

Hún segir að Blonz vilji fyrir alvöru standa sig aftur á parketinu.

„Það voru nokkrir mánuðir þar sem hann hló ekki oft eða sýndi áhuga, en nú blómstrar hann aftur. Það er rosalega gaman að sjá og það yljar hjarta mitt,“ segir Österli.

Frábært að fá hann aftur

„Hann lenti bæði í þessum veikindum og hnémeiðslunum á sama tíma, svo það er frábært að fá hann aftur. Ég er mjög glaður fyrir hans hönd,“ segir landsliðsþjálfarinn Jonas Wille við NRK.

„Hann á auðvitað enn þá nokkuð í land með að komast í toppform, en við vildum hafa hann með hér til að fylgjast betur með honum og hafa hann nálægt okkur í þessu umhverfi,“ heldur hann áfram.

Landsliðsþjálfarinn segir að Blonz komi sterklega til greina í meistarakeppnishópinn fyrir EM á heimavelli í janúar, en að samkeppnin sé hörð frá þremur öðrum hornamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×