Golf

Banda­rísku kylfingarnir gefa Ryder-launin eftir gagn­rýni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Xander Schauffele ætlar ekki að þiggja laun fyrir að keppa í Ryder-bikarnum.
Xander Schauffele ætlar ekki að þiggja laun fyrir að keppa í Ryder-bikarnum. epa/ERIK S. LESSER

Nokkrir leikmenn bandaríska liðsins hafa ákveðið að gefa alla upphæðina sem þeir fá fyrir að taka þátt í Ryder-bikarnum í golfi til góðgerðamála.

Allir tólf kylfingarnir í bandaríska liðinu, auk fyrirliðans Keegans Bradley, fá fimm hundruð þúsund Bandaríkjadala fyrir að keppa í Ryder-bikarnum, þar af fara þrjú hundruð þúsund af þeirri upphæð til góðgerðamála.

Þetta er í fyrsta sinn sem keppendur fá greitt fyrir að taka þátt í Ryder-bikarnum og það hefur víða verið gagnrýnt. Evrópsku keppendurnir fá ekki greitt fyrir sína þátttöku í Ryder-bikarnum sem hefst á föstudaginn og stendur yfir fram á sunnudaginn.

Í gær sögðu Scottie Scheffler, Patrick Cantley og Xander Schauffele að þeir myndu gefa öll launin sem þeir fengju fyrir að keppa í Ryder-bikarnum til góðgerðamála.

„Þið reynið að tala um þetta og gera að einhverju neikvæðu. Allir hafa sína skoðun á þessu. Því fylgir mikið stolt að keppa á þessu móti og við erum ánægðir að fá greitt fyrir þetta. Og já, ég ætla að gefa þetta til góðgerðamála. Það er eitthvað sem lætur mér líða vel með það sem ég geri,“ sagði Schauffele.

Bradley ætlar einnig að gefa launin sín til góðgerðamála en botnar ekkert í gagnrýninni á greiðslur til bandarísku kylfinganna. Fyrirliði Evrópu, Luke Donald, sagði hins vegar að kylfingarnir í liðinu hefðu hafnað því að fá greitt fyrir þátttöku sína í Ryder-bikarnum.

Sýnt verður beint frá öllum keppnisdögunum í Ryder-bikarnum á Sýn Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×