Lífið

Nígerískt stjörnubrúðkaup í Hall­gríms­kirkju

Agnar Már Másson og Jón Þór Stefánsson skrifa
Unnið er hörðum höndum að gera Hallgrímskirkju klára fyrir brúðkaupið eftir hádegið.
Unnið er hörðum höndum að gera Hallgrímskirkju klára fyrir brúðkaupið eftir hádegið. Vísir/Lýður

Nígerísk leikkona, dóttir eins ríkasta manns heims, mun vera að gifta sig í Hallgrímskirkju í dag. Kirkjan er lokuð milli klukkan þrjú og fimm í dag vegna þess.

Þegar þessi frétt er skrifuð er verið að setja upp skreytingar í kirkjunni vegna brúðkaupsins. Á gólfi Hallgrímskirkju má nú sjá mikið blómahaf.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er dóttir eins ríkasta manns heims að gifta sig. Búist er við að tvö hundruð manns muni mæta.

Margar hendur hjálpast að.Vísir/Lýður

Þá herma heimildir fréttastofu að þrjár hæðir á Edition-hótelinu hafi verið leigðar vegna brúðkaupsveislunnar.

Umrædd leikkona er, samkvæmt heimildum fréttastofu, Temi Otedola sem er 29 ára gömul. Hún hefur til að mynda leikið í nígerískum kvikmyndum á borð við Citation, sem er dreift af Netflix, og Ms. Kanyin, sem er dreift af Amazon Prime. 

Brúðguminn heitir Oluwatosin Oluwole Ajibade, en er talsvert þekktari undir nafninu Mr Eazi. Hann er tónlistarmaður og hefur starfað með tónlistarmönnum á borð við Bad Bunny og J Balvin. Mr Eazi birti fyrir tveimur vikum tónlistarmyndband á Instagram og í framhaldinu fleiri myndir í íslensku hrauni.

Faðir Temi heitir Femi Otedola og er nígerískur athafnamaður sem hefur eignast mestan auð sinn á olíu- og orkuviðskiptum.

Hann er sem stendur í 2566 sæti á lista Forbes yfir ríkustu menn heim og eru eignir hans metnar á 1,3 milljarði Bandaríkjadali, sem jafngildir um 160 milljörðum króna.

Grétar Einarsson, kirkjuhaldari í Hallgrímskirkju, vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu. Verðandi brúðhjónin munu hafa óskað eftir fréttabanni.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.