Golf

Hefur ekki hug­mynd hvar Ólympíugullið hans er niður­komið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xander Schauffele bítur í Ólympíugullverðlaunapening sinn sem hann vann í Tókýó 2021.
Xander Schauffele bítur í Ólympíugullverðlaunapening sinn sem hann vann í Tókýó 2021. Getty/Mike Ehrmann

Bandaríski kylfingurinn Xander Schauffele hefur titil að verja þegar Opna breska meistaramótið í golfi hefst á morgun. Ekki spyrja hann þó af því hvar hann geymir Ólympíugullverðlaun sín.

Opna breska meistaramótið fer að þessu sinni fram hjá Royal Portrush golfklúbbnum á Norður Írlandi. Þetta er í þriðja sinn sem klúbburinn hýsir Opna breska en í fyrsta sinn frá 2019.

Opna breska risamótið verður sýnt í beinni á SÝN Sport 4 alla helgina. Útsendingin frá fyrsta degi hefst klukkan 5.30 í fyrramálið.

Schauffele hefur unnið tvö risamót á ferlinum og þau vann hann bæði í fyrra, Opna breska og PGA-meistaramótið.

Á Opna breska meistaramótinu í fyrra lék hann hringina fjóra á 275 höggum eða níu höggum undir pari. Hann endaði tveimur höggum á undan næstu mönnum og vann sér inn 3,1 milljón Bandaríkjadali.

Hann tryggði sér titilinn með því að leika lokadaginn á sex höggum undir pari eða á 65 höggum.

Schauffele var spurður út í hvar hann geymi verðlaun sín frá ferlinum. Hann segir að foreldrar hans geymi þau og „líklegast í bankahólfi“.

En hvað með gullverðlaunin frá því á leikunum í Tókýó 2021?

„Ég hef ekki hugmynd hvar þau eru ef ég segi alveg eins og er,“ sagði Xander Schauffele.

„Hvað ætti ég að gera við þau? Ég er ekkert að bjóða fólki í heimsókn í húsið mitt. Á ég bara að vera skoða þetta sjálfur? Ég hef engan áhuga á því að labba inn í bikarherbergi og segja: Sjáið hvað ég er frábær,“ sagði Schauffele.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×