Stjórnmál sem virka og lýðræði sem kemst ekki fyrir í umslagi Þórður Snær Júlíusson skrifar 15. júlí 2025 07:00 Fyrsta þinginu eftir hrein stjórnarskipti undir lok síðasta árs lauk á mánudag. Það byrjaði mun seinna en vani er fyrir en stóð á endanum líka um mánuði lengur. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur lagði fram afar metnaðarfulla stefnuyfirlýsingu og þingmálaskrá sem endurspeglaði að þrír flokkar breytinga og verka voru teknir við af kyrrstöðustjórn gömlu valdaflokkanna. Yfir 100 mál voru á þingmálaskránni. Sum þeirra voru nauðsynleg framfaramál sem byrjað var á á síðustu árum en ríkisstjórn þess tíma, sem tókst ekki að vera sammála um neitt nema að stjórna, gat ekki komið sér saman um að klára. Önnur voru mikilvæg vegna þess að aðgerðar- og getuleysi íhaldsins var búið að setja ýmis svið samfélagsins í ógöngur. Og hluti málanna voru auðvitað hápólitísk stefnumál þeirra þriggja umbótaflokka sem íslensk þjóð kaus til að leiða landið. Mál sem sýna fólki að stjórnmál eru ekki stöðnun heldur breytingarafl. List hins mögulega. Mikill og sýnilegur árangur Árangurinn hefur verið mjög góður á flesta mælikvarða. Tölfræðin sýnir til dæmis að verkstjórnin kom 91 prósent þeirra mála sem voru á þingmálaskrá hennar til Alþingis. Til samanburðar má nefna að síðasta ríkisstjórn, skipuð Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Vinstri grænum, kom einungis 13 prósent sinna mála til þings á haustþinginu í fyrra. Vorið 2024 kom sama ríkisstjórn tveimur af hverjum þremur málum til þings. Árið 2023 voru hlutföllin 56 og 59 prósent. Af þeim málum sem ríkisstjórnin hefur komið til þings hafa hátt í 50 þegar verið afgreidd og margt annað sem þurfti ekki lagasetningu fyrir verið fært til betri vegar. Þar af eru risastór mál sem skipta almenning á Íslandi gríðarlegu máli. Stöðugleikaregla hefur verið innleidd, fjármálaáætlun lögð fram, verðbólga og vextir lækkaðir, loforð gefið út um hallalaus fjárlög 2027, ÍL-sjóðsvandinn leystur og banki seldur án þess að pólitísk spilling hafi haldið samfélaginu í heljargreipum árum saman í kjölfarið. Búið er að bæta milljörðum króna í viðhald vega, hefja framkvæmdir við sex ný hjúkrunarheimili, tryggja fjármagn svo að lífeyrir muni fylgja launum, nýtt örorkulífeyriskerfi tekur von bráðar gildi sem hækkar greiðslur til öryrkja og trítekjumark ellilífeyris hækkar í 60 þúsund krónur á mánuði. Lögreglumönnum hefur verið fjölgað um 50, landamærin styrkt, meðferðarúrræði fyrir fíknisjúklinga eru nú opin allt árið, fæðingarorlof er orðið betra, fjármagn hefur verið tryggt til að byggja við fimm verknámsskóla, sögulegt samkomulag var gert við sveitarfélögin um þjónustu við börn með fjölþættan vanda og uppbyggingu hjúkrunarheimila, nýtt samræmt námsmat innleitt, Þjóðarópera stofnuð, tilvísunarkerfi fyrir börn í heilbrigðiskerfinu afnumið og mikilvæg lög um heilbrigðisskrár, skaðaminnkun og eftirlit landlæknis voru samþykkt. Til viðbótar hefur vitanlega kyrrstaða í orkumálum verið rofin, orkuforgangur almennings tryggður og markviss fjárfestingastuðningur við garðyrkjubændur innleiddur. Þá eru ótalin þau tvö risastóru kerfisbreytingarmál sem voru samþykkt á síðasta degi þingsins: löngu tímabær heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og löngu tímabær leiðrétting veiðigjalds. Tafarleikir og þingleg klækjabrögð Ríkisstjórnarflokkarnir voru tilbúnir til að afgreiða öll þau mál sem voru komin inn í þingið. Þeir voru, og eru, sammála um að gera það og þingmenn flokkanna hefðu verið klárir í að vinna eins lengi inn í sumarið og nauðsyn væri til að koma þeim öllum í gegn. Ástæða þess að fresta þurfi afgreiðslu margra góðra mála um nokkrar vikur liggur ekki þar. Ástæðan er þvert á móti sú að minnihlutinn á þingi hefur beitt sér með fordæmalausum hætti síðustu mánuði. Hann hefur stundað tafarleiki, þingleg klækjabrögð og málþóf umfram það sem áður hefur þekkst. Hann tafði í umræðum um fríverslunarsamninga, í umræðum um innleiðingu á reglugerð um plasttappa, í þriðju umræðu um nýtt námsmat. Minnihlutinn hefur tafið málsmeðferð í nefndum, hann hefur ítrekað kallað eftir því að mál verði send aftur til nefnda eftir að umfjöllun um þau var lokið, tafið með löngum atkvæðaskýringum og rokið oftar upp í pontu undir því yfirskini að ræða fundarstjórn forseta en nokkur vani er fyrir. Minnihlutinn fór í málþóf út af bókun við alþjóðasamning, setti Íslandsmet í fyrstu umræðu um leiðréttingu veiðigjalda og annað slíkt met þegar málþóf hans í því máli varð það lengsta allra tíma. Vilja ekki leyfa meirihluta að stjórna Hér er auðvitað stuðst við gamalkunna handbók innan úr íslensku valdaflokkunum. Í henni felst að þegar þeir missa völd þá gera flokkarnir öll mál tortryggileg, jafnvel þau sem þeir styðja í hjarta sínu. Í andstöðunni felst að vera á móti öllu. Það sem núverandi minnihluti á Alþingi, skipaður flokkum sem var skýrt hafnað í síðustu þingkosningum, hefur bætt við þessa leikjafræði er að hann ætlar sér einfaldlega að banna ríkisstjórn með skýrt pólitískt umboð að koma sínum málum í gegn. Ekki einungis að vera á móti þeim öllum, heldur koma í veg fyrir að þau verði að lögum. Og vera svo yfir sig hneyksluð, oftast nær á innsoginu, þegar réttkjörin stjórnvöld í landinu spila ekki með. Þessi afstaða er ekkert leyndarmál. Hún kom skýrt fram í ræðum í þinginu. Varaformaður eins andstöðuflokksins sagði til að mynda að það væri heilög skylda hans að stöðva frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðrétt veiðigjöld ásamt öðrum málum sem hann teldi að væru della. Flokksbróðir hans sagði að það yrðu fluttar eins margar ræður og til þarf til þess að uppfylla þá skyldu. Lýðræði minnihlutans Birtingarmyndirnar hafa verið fleiri. Í þinglokasamningum rétti til að mynda fulltrúi minnihlutans á Alþingi stjórnarmeirihlutanum eigið frumvarp um veiðigjöld í umslagi og sagði honum að leggja það fram í staðinn fyrir sitt eigið. Þannig væri hægt að ljúka umræðu um málið og senda Alþingi í sumarfrí. Frumvarp minnihlutans fól ekki í sér kerfisbreytingu líkt og pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar stóð til heldur væga hækkun á núverandi gjaldakerfi yfir margra ára skeið. Það er mikilvægt að almenningur skilji hvað fólst í þessari aðgerð. Þeir sem eru ekki í ríkisstjórn kröfðust þess að ríkisstjórnin myndi henda sínu máli, leggja þess í stað fram þeirra mál og bera svo á því pólitíska ábyrgð. Svona telur minnihlutinn að samkomulag um þinglok eigi að ganga fyrir sig. Þetta er hans lýðræði. Að það ríki einhvers konar hefðarréttur á völdum á Íslandi. Á lokasprettinum átti sér svo stað sá einstæði atburður að varaforseti þings, sem er líka þingflokksformaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins, sleit þingfundi án samráðs við forseta Alþingis. Fordæmalausir tímar Forseti Alþingis þurfti því að leysa úr afar flókinni stöðu þegar fyrir lá að búið var að taka þingstörfin í gíslingu. Það gerði hún með því að nýta ákvæði þingskaparlaga og stöðva aðra umræðu um frumvarp um leiðréttingu veiðigjalda þegar fyrir lá að enginn vilji var hjá minnihlutanum á þingi til að semja um lok þeirrar umræðu. Þegar fyrir lá að ekkert annað mál myndi klárast nema að kerfisbreyting við rukkun veiðigjalda yrði sett til hliðar. Líkt og kom fram í góðri grein tveggja prófessora í heimspeki á þessum vettvangi um liðna helgi þá er markmið fulltrúalýðræðis tvíþætt: annars vegar að tryggja vandaða umræðu áður en ákvarðanir eru teknar og hins vegar að tryggja að vilji meirihlutans nái fram að ganga. Þegar horft er til þessa er skýrt að ákvörðun forseta var rétt. Vönduð þingleg meðferð málsins hafði meðal annars falið í sér að á níunda tug umsagna var skilað um frumvarpið, að tugir gesta voru kallaðir fyrir atvinnuveganefnd, að aukafundir hafa verið haldnir í nefndinni til að svara spurningum minnihlutans og að búið sé að ræða málið í sal Alþingis í næstum 160 klukkustundir. Það er lengsta umræða sem farið hefur fram þar í sögunni og tæpur fjórðungur alls ræðutíma á nýloknu þingi fór í málið. Erfitt er að halda öðru fram en að búið hafi verið að tryggja grundvöll fyrir vandaða umræðu, þótt vissulega megi deila um hvort obbi þeirra ræðna sem minnihlutinn flutti eigi nokkuð skylt við vandaðan eða vitrænan málflutning. Fyrir lá, þegar allt ofangreint og ýmislegt annað er tekið saman á einn reikning, að það eru fordæmalausir tímar í íslenskum stjórnmálum. Tímar þar sem minnihlutinn, flokkarnir sem töpuðu síðustu lýðræðislegu kosningum, hafa sett á fót hvert leikritið á fætur öðru í þeim eina tilgangi að stöðva framgang lýðræðisins. Á þann hnút þurfti að höggva. Skilaboðin skýr Nú þegar fyrsta leikhluta kjörtímabilsins er formlega lokið liggur líka nokkuð skýrt fyrir að það er ekki salur fyrir svona pólitík. Skoðanakannanir eru sannarlega ekki endanlegur mælikvarði á frammistöðu og þær á ekki að nýta sem leiðarljós við stjórnun lands. En þær sýna punktstöðu um hvernig áherslur og verk stjórnmálamanna og ríkisstjórna setjast hjá þjóðinni hverju sinni. Nokkuð skýrt er hvernig sú staða liggur. Í fyrsta lagi þá nýtur ríkisstjórnin stuðnings yfirgnæfandi hlutar þjóðarinnar. Þá mánuði sem hún hefur starfað hefur sá stuðningur haldist meira og minna nálægt því að tveir af hverjum þremur landsmönnum styðji hana. Sameiginlegt fylgi þeirra þriggja flokka sem að stjórninni standa hefur aukist frá síðustu kosningum og myndi skila þeim fleiri þingmönnum en þeir hafa nú ef kosið yrði í dag. Gallup kannaði líka nýverið ánægju með störf ráðherra og kom ríkisstjórnin í heild mjög vel út úr þeim mælingum. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er sá ráðherra sem mælist mest ánægja með, en 62,5 prósent landsmanna meta verk hennar og framgöngu vel. Einungis rúmur fimmtungur kjósenda segist vera óánægð með störf forsætisráðherra. Þessar tölur ríma að öllu leyti við þann stuðning sem ríkisstjórnin hefur í heild. Það vekur ekki síður athygli að vinsældir allra ráðherra Samfylkingarinnar eru sem stendur mestar í Norðausturkjördæmi, þar sem nokkur af stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins sem munu greiða hvað mest í leiðrétt veiðigjald eru með heimilisfesti. Þannig mælist ánægja með störf forsætisráðherra, sem hefur ásamt atvinnuvegaráðherra staðið í forgrunni málsins, nú 71 prósent í því kjördæmi. Þrátt fyrir hlægilegar tilraunir málgagna gamla valdakerfisins að reyna að forma stöðu mála sem einhvers konar glundroða á ábyrgð ríkisstjórnar sem veit ekkert og skilur minna þá sér almenningur í landinu einfaldlega í gegnum þetta. Hann segir það í skoðanakönnunum, hann segir það á samfélagsmiðlum og hann segir það beint við þingmenn stjórnarflokkanna hvert sem þeir fara í þjóðfélaginu. Skilaboðin alls staðar eru skýr: þið eruð á réttri leið, við treystum ykkur, klárið þessi mál fyrir okkur! Íslensk stjórnmál virka Framganga minnihlutans á Alþingi á fyrsta þingvetri fól í sér að hann viðurkennir ekki að meirihlutinn sem myndar ríkisstjórn fari með völdin í landinu. Hann hafnar því að 36 þingmenn af 63, sem mynda og styðja samhenta ríkisstjórn verka, hafi umboð til þess að koma pólitískum áherslumálum sínum á framfæri. Þessi höfnun á lýðræðislegri afgreiðslu mála á sér engin fordæmi í Íslandssögunni og staðan sem hún skapaði var grafalvarleg fyrir stjórnskipan landsins. Líkt og forsætisráðherra landsins sagði í mikilvægri yfirlýsingu á fimmtudag í síðustu viku þá þýðir þetta í raun að „minni hlutinn viðurkennir ekki niðurstöður kosninga heldur freistar þess að stýra þinginu þrátt fyrir að vera ekki með meiri hluta á Alþingi.“ Þegar skorið var á þann hnút með nýtingu á ákvæði þingskaparlaga brást stjórnarandstaðan við með því að hóta afleiðingum langt inn í framtíðina. Á síðustu mánuðum hafa verið send skýr skilaboð um að íslensk stjórnmál virki. Að ríkisstjórn sem hefur skýrt pólitískt umboð sé tilbúin að ráðast í mál sem skipta fólkið í landinu raunverulegu máli, taka ábyrgð á þeim málum og tryggja að þau fái lýðræðislega afgreiðslu. Með því er verið að hafna stjórnmálum umslaga, þar sem ráðandi öflum er sagt hvað þau eigi að gera. Í staðinn erum við að taka ákvarðanir á grundvelli almannahagsmuna, veita svigrúm fyrir vandaða umræðu en tryggja að hér sé ekki til staðar neitunarvald minni hlutans. Á Íslandi er nefnilega lýðræði. Því megum við aldrei gleyma. Höfundur er framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórður Snær Júlíusson Alþingi Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur Mest lesið Hverjir eiga Ísland? Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Stjórnmál sem virka og lýðræði sem kemst ekki fyrir í umslagi Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ríkisstjórnin stóð af sér áhlaup sérhagsmuna Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Orðhengilsháttur og lygar Elín Erna Steinarsdóttir Skoðun Fröken þjóðarmorð: Þér er ekki boðið! Linda Ósk Árnadóttir,Yousef Ingi Tamimi Skoðun „Að skrifa söguna“ Var of mikið undir hjá kvennalandsliðinu? Viðar Halldórsson Skoðun Hvert er markmið fulltrúalýðræðis? Hlynur Orri Stefánsson,Vilhjálmur Árnason Skoðun Ursula Von der Leyen styður stríðsglæpamenn - Ísland á ekki að þegja Helen Ólafsdóttir Skoðun Aftur á byrjunarreit Hörður Arnarson Skoðun Áform um að eyðileggja Ísland! Jóna Imsland Skoðun Skoðun Skoðun Vönduð vinnubrögð - alltaf! Jóna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Ríkisstjórnin stóð af sér áhlaup sérhagsmuna Ásthildur Lóa Þórsdóttir skrifar Skoðun Stjórnmál sem virka og lýðræði sem kemst ekki fyrir í umslagi Þórður Snær Júlíusson skrifar Skoðun Þversögn Íslands í Palestínumálinu: Um fullveldi, samsekt og réttarríkið Gína Júlía Waltersdóttir skrifar Skoðun Tvöföld bið eftir geislameðferð er of löng Katrín Sigurðardóttir skrifar Skoðun Fröken þjóðarmorð: Þér er ekki boðið! Linda Ósk Árnadóttir,Yousef Ingi Tamimi skrifar Skoðun Linsa Lífsins Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun „Að skrifa söguna“ Var of mikið undir hjá kvennalandsliðinu? Viðar Halldórsson skrifar Skoðun Gervigreind í skólum: Tækifæri til byltingar eða hætta á nýjum ójöfnuði? Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Netöryggi til framtíðar Unnur Kristín Sveinbjarnardóttir skrifar Skoðun Aftur á byrjunarreit Hörður Arnarson skrifar Skoðun Norðurlandamet í fúski! Kristinn Karl Brynjarsson skrifar Skoðun Flugnám -Þriðji hluti: Samtvinnað (Integrated) eða áfangaskipt (Modular) ATPL flugnám Matthías Arngrímsson skrifar Skoðun Ursula Von der Leyen styður stríðsglæpamenn - Ísland á ekki að þegja Helen Ólafsdóttir skrifar Skoðun Ursula von der Leyen styður þjóðarmorð! Hjálmtýr Heiðdal skrifar Skoðun Hvert er markmið fulltrúalýðræðis? Hlynur Orri Stefánsson,Vilhjálmur Árnason skrifar Skoðun Ég vona að þú gleymir mér ekki Hlynur Már Vilhjálmsson skrifar Skoðun Hvaða einkunn fékkst þú á bílprófinu? Grétar Birgisson skrifar Skoðun Að koma út í lífið með verri forgjöf, hvernig tilfinning er það? Davíð Bergmann skrifar Skoðun Tjaldið fellt í leikhúsi fáránleikans Vésteinn Ólason skrifar Skoðun Heilbrigðisreglugerð WHO: Hagsmunir eða heimska? Júlíus Valsson skrifar Skoðun Málþófs klúður Sægreifa-flokkanna Jón Þór Ólafsson skrifar Skoðun Græna vöruhúsið setur svartan blett á íslenskt samfélag Davíð Aron Routley skrifar Skoðun Dæmt um efni, Hörður Árni Finnsson,Elvar Örn Friðriksson,Snæbjörn Guðmundsson skrifar Skoðun Flugnám - Annar hluti: Afskiptaleysi stjórnvalda Matthías Arngrímsson skrifar Skoðun Sóvésk sápuópera Franklín Ernir Kristjánsson skrifar Skoðun Á hvaða vegferð er ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur gagnvart sjávarútvegssveitarfélögunum? Anton Guðmundsson skrifar Skoðun Dæmir sig sjálft Jón Pétur Zimsen skrifar Skoðun Mega blaðamenn ljúga? Páll Steingrímsson skrifar Skoðun Ákall um nægjusemi í heimi neyslubrjálæðis Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar Sjá meira
Fyrsta þinginu eftir hrein stjórnarskipti undir lok síðasta árs lauk á mánudag. Það byrjaði mun seinna en vani er fyrir en stóð á endanum líka um mánuði lengur. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur lagði fram afar metnaðarfulla stefnuyfirlýsingu og þingmálaskrá sem endurspeglaði að þrír flokkar breytinga og verka voru teknir við af kyrrstöðustjórn gömlu valdaflokkanna. Yfir 100 mál voru á þingmálaskránni. Sum þeirra voru nauðsynleg framfaramál sem byrjað var á á síðustu árum en ríkisstjórn þess tíma, sem tókst ekki að vera sammála um neitt nema að stjórna, gat ekki komið sér saman um að klára. Önnur voru mikilvæg vegna þess að aðgerðar- og getuleysi íhaldsins var búið að setja ýmis svið samfélagsins í ógöngur. Og hluti málanna voru auðvitað hápólitísk stefnumál þeirra þriggja umbótaflokka sem íslensk þjóð kaus til að leiða landið. Mál sem sýna fólki að stjórnmál eru ekki stöðnun heldur breytingarafl. List hins mögulega. Mikill og sýnilegur árangur Árangurinn hefur verið mjög góður á flesta mælikvarða. Tölfræðin sýnir til dæmis að verkstjórnin kom 91 prósent þeirra mála sem voru á þingmálaskrá hennar til Alþingis. Til samanburðar má nefna að síðasta ríkisstjórn, skipuð Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Vinstri grænum, kom einungis 13 prósent sinna mála til þings á haustþinginu í fyrra. Vorið 2024 kom sama ríkisstjórn tveimur af hverjum þremur málum til þings. Árið 2023 voru hlutföllin 56 og 59 prósent. Af þeim málum sem ríkisstjórnin hefur komið til þings hafa hátt í 50 þegar verið afgreidd og margt annað sem þurfti ekki lagasetningu fyrir verið fært til betri vegar. Þar af eru risastór mál sem skipta almenning á Íslandi gríðarlegu máli. Stöðugleikaregla hefur verið innleidd, fjármálaáætlun lögð fram, verðbólga og vextir lækkaðir, loforð gefið út um hallalaus fjárlög 2027, ÍL-sjóðsvandinn leystur og banki seldur án þess að pólitísk spilling hafi haldið samfélaginu í heljargreipum árum saman í kjölfarið. Búið er að bæta milljörðum króna í viðhald vega, hefja framkvæmdir við sex ný hjúkrunarheimili, tryggja fjármagn svo að lífeyrir muni fylgja launum, nýtt örorkulífeyriskerfi tekur von bráðar gildi sem hækkar greiðslur til öryrkja og trítekjumark ellilífeyris hækkar í 60 þúsund krónur á mánuði. Lögreglumönnum hefur verið fjölgað um 50, landamærin styrkt, meðferðarúrræði fyrir fíknisjúklinga eru nú opin allt árið, fæðingarorlof er orðið betra, fjármagn hefur verið tryggt til að byggja við fimm verknámsskóla, sögulegt samkomulag var gert við sveitarfélögin um þjónustu við börn með fjölþættan vanda og uppbyggingu hjúkrunarheimila, nýtt samræmt námsmat innleitt, Þjóðarópera stofnuð, tilvísunarkerfi fyrir börn í heilbrigðiskerfinu afnumið og mikilvæg lög um heilbrigðisskrár, skaðaminnkun og eftirlit landlæknis voru samþykkt. Til viðbótar hefur vitanlega kyrrstaða í orkumálum verið rofin, orkuforgangur almennings tryggður og markviss fjárfestingastuðningur við garðyrkjubændur innleiddur. Þá eru ótalin þau tvö risastóru kerfisbreytingarmál sem voru samþykkt á síðasta degi þingsins: löngu tímabær heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og löngu tímabær leiðrétting veiðigjalds. Tafarleikir og þingleg klækjabrögð Ríkisstjórnarflokkarnir voru tilbúnir til að afgreiða öll þau mál sem voru komin inn í þingið. Þeir voru, og eru, sammála um að gera það og þingmenn flokkanna hefðu verið klárir í að vinna eins lengi inn í sumarið og nauðsyn væri til að koma þeim öllum í gegn. Ástæða þess að fresta þurfi afgreiðslu margra góðra mála um nokkrar vikur liggur ekki þar. Ástæðan er þvert á móti sú að minnihlutinn á þingi hefur beitt sér með fordæmalausum hætti síðustu mánuði. Hann hefur stundað tafarleiki, þingleg klækjabrögð og málþóf umfram það sem áður hefur þekkst. Hann tafði í umræðum um fríverslunarsamninga, í umræðum um innleiðingu á reglugerð um plasttappa, í þriðju umræðu um nýtt námsmat. Minnihlutinn hefur tafið málsmeðferð í nefndum, hann hefur ítrekað kallað eftir því að mál verði send aftur til nefnda eftir að umfjöllun um þau var lokið, tafið með löngum atkvæðaskýringum og rokið oftar upp í pontu undir því yfirskini að ræða fundarstjórn forseta en nokkur vani er fyrir. Minnihlutinn fór í málþóf út af bókun við alþjóðasamning, setti Íslandsmet í fyrstu umræðu um leiðréttingu veiðigjalda og annað slíkt met þegar málþóf hans í því máli varð það lengsta allra tíma. Vilja ekki leyfa meirihluta að stjórna Hér er auðvitað stuðst við gamalkunna handbók innan úr íslensku valdaflokkunum. Í henni felst að þegar þeir missa völd þá gera flokkarnir öll mál tortryggileg, jafnvel þau sem þeir styðja í hjarta sínu. Í andstöðunni felst að vera á móti öllu. Það sem núverandi minnihluti á Alþingi, skipaður flokkum sem var skýrt hafnað í síðustu þingkosningum, hefur bætt við þessa leikjafræði er að hann ætlar sér einfaldlega að banna ríkisstjórn með skýrt pólitískt umboð að koma sínum málum í gegn. Ekki einungis að vera á móti þeim öllum, heldur koma í veg fyrir að þau verði að lögum. Og vera svo yfir sig hneyksluð, oftast nær á innsoginu, þegar réttkjörin stjórnvöld í landinu spila ekki með. Þessi afstaða er ekkert leyndarmál. Hún kom skýrt fram í ræðum í þinginu. Varaformaður eins andstöðuflokksins sagði til að mynda að það væri heilög skylda hans að stöðva frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðrétt veiðigjöld ásamt öðrum málum sem hann teldi að væru della. Flokksbróðir hans sagði að það yrðu fluttar eins margar ræður og til þarf til þess að uppfylla þá skyldu. Lýðræði minnihlutans Birtingarmyndirnar hafa verið fleiri. Í þinglokasamningum rétti til að mynda fulltrúi minnihlutans á Alþingi stjórnarmeirihlutanum eigið frumvarp um veiðigjöld í umslagi og sagði honum að leggja það fram í staðinn fyrir sitt eigið. Þannig væri hægt að ljúka umræðu um málið og senda Alþingi í sumarfrí. Frumvarp minnihlutans fól ekki í sér kerfisbreytingu líkt og pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar stóð til heldur væga hækkun á núverandi gjaldakerfi yfir margra ára skeið. Það er mikilvægt að almenningur skilji hvað fólst í þessari aðgerð. Þeir sem eru ekki í ríkisstjórn kröfðust þess að ríkisstjórnin myndi henda sínu máli, leggja þess í stað fram þeirra mál og bera svo á því pólitíska ábyrgð. Svona telur minnihlutinn að samkomulag um þinglok eigi að ganga fyrir sig. Þetta er hans lýðræði. Að það ríki einhvers konar hefðarréttur á völdum á Íslandi. Á lokasprettinum átti sér svo stað sá einstæði atburður að varaforseti þings, sem er líka þingflokksformaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins, sleit þingfundi án samráðs við forseta Alþingis. Fordæmalausir tímar Forseti Alþingis þurfti því að leysa úr afar flókinni stöðu þegar fyrir lá að búið var að taka þingstörfin í gíslingu. Það gerði hún með því að nýta ákvæði þingskaparlaga og stöðva aðra umræðu um frumvarp um leiðréttingu veiðigjalda þegar fyrir lá að enginn vilji var hjá minnihlutanum á þingi til að semja um lok þeirrar umræðu. Þegar fyrir lá að ekkert annað mál myndi klárast nema að kerfisbreyting við rukkun veiðigjalda yrði sett til hliðar. Líkt og kom fram í góðri grein tveggja prófessora í heimspeki á þessum vettvangi um liðna helgi þá er markmið fulltrúalýðræðis tvíþætt: annars vegar að tryggja vandaða umræðu áður en ákvarðanir eru teknar og hins vegar að tryggja að vilji meirihlutans nái fram að ganga. Þegar horft er til þessa er skýrt að ákvörðun forseta var rétt. Vönduð þingleg meðferð málsins hafði meðal annars falið í sér að á níunda tug umsagna var skilað um frumvarpið, að tugir gesta voru kallaðir fyrir atvinnuveganefnd, að aukafundir hafa verið haldnir í nefndinni til að svara spurningum minnihlutans og að búið sé að ræða málið í sal Alþingis í næstum 160 klukkustundir. Það er lengsta umræða sem farið hefur fram þar í sögunni og tæpur fjórðungur alls ræðutíma á nýloknu þingi fór í málið. Erfitt er að halda öðru fram en að búið hafi verið að tryggja grundvöll fyrir vandaða umræðu, þótt vissulega megi deila um hvort obbi þeirra ræðna sem minnihlutinn flutti eigi nokkuð skylt við vandaðan eða vitrænan málflutning. Fyrir lá, þegar allt ofangreint og ýmislegt annað er tekið saman á einn reikning, að það eru fordæmalausir tímar í íslenskum stjórnmálum. Tímar þar sem minnihlutinn, flokkarnir sem töpuðu síðustu lýðræðislegu kosningum, hafa sett á fót hvert leikritið á fætur öðru í þeim eina tilgangi að stöðva framgang lýðræðisins. Á þann hnút þurfti að höggva. Skilaboðin skýr Nú þegar fyrsta leikhluta kjörtímabilsins er formlega lokið liggur líka nokkuð skýrt fyrir að það er ekki salur fyrir svona pólitík. Skoðanakannanir eru sannarlega ekki endanlegur mælikvarði á frammistöðu og þær á ekki að nýta sem leiðarljós við stjórnun lands. En þær sýna punktstöðu um hvernig áherslur og verk stjórnmálamanna og ríkisstjórna setjast hjá þjóðinni hverju sinni. Nokkuð skýrt er hvernig sú staða liggur. Í fyrsta lagi þá nýtur ríkisstjórnin stuðnings yfirgnæfandi hlutar þjóðarinnar. Þá mánuði sem hún hefur starfað hefur sá stuðningur haldist meira og minna nálægt því að tveir af hverjum þremur landsmönnum styðji hana. Sameiginlegt fylgi þeirra þriggja flokka sem að stjórninni standa hefur aukist frá síðustu kosningum og myndi skila þeim fleiri þingmönnum en þeir hafa nú ef kosið yrði í dag. Gallup kannaði líka nýverið ánægju með störf ráðherra og kom ríkisstjórnin í heild mjög vel út úr þeim mælingum. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er sá ráðherra sem mælist mest ánægja með, en 62,5 prósent landsmanna meta verk hennar og framgöngu vel. Einungis rúmur fimmtungur kjósenda segist vera óánægð með störf forsætisráðherra. Þessar tölur ríma að öllu leyti við þann stuðning sem ríkisstjórnin hefur í heild. Það vekur ekki síður athygli að vinsældir allra ráðherra Samfylkingarinnar eru sem stendur mestar í Norðausturkjördæmi, þar sem nokkur af stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins sem munu greiða hvað mest í leiðrétt veiðigjald eru með heimilisfesti. Þannig mælist ánægja með störf forsætisráðherra, sem hefur ásamt atvinnuvegaráðherra staðið í forgrunni málsins, nú 71 prósent í því kjördæmi. Þrátt fyrir hlægilegar tilraunir málgagna gamla valdakerfisins að reyna að forma stöðu mála sem einhvers konar glundroða á ábyrgð ríkisstjórnar sem veit ekkert og skilur minna þá sér almenningur í landinu einfaldlega í gegnum þetta. Hann segir það í skoðanakönnunum, hann segir það á samfélagsmiðlum og hann segir það beint við þingmenn stjórnarflokkanna hvert sem þeir fara í þjóðfélaginu. Skilaboðin alls staðar eru skýr: þið eruð á réttri leið, við treystum ykkur, klárið þessi mál fyrir okkur! Íslensk stjórnmál virka Framganga minnihlutans á Alþingi á fyrsta þingvetri fól í sér að hann viðurkennir ekki að meirihlutinn sem myndar ríkisstjórn fari með völdin í landinu. Hann hafnar því að 36 þingmenn af 63, sem mynda og styðja samhenta ríkisstjórn verka, hafi umboð til þess að koma pólitískum áherslumálum sínum á framfæri. Þessi höfnun á lýðræðislegri afgreiðslu mála á sér engin fordæmi í Íslandssögunni og staðan sem hún skapaði var grafalvarleg fyrir stjórnskipan landsins. Líkt og forsætisráðherra landsins sagði í mikilvægri yfirlýsingu á fimmtudag í síðustu viku þá þýðir þetta í raun að „minni hlutinn viðurkennir ekki niðurstöður kosninga heldur freistar þess að stýra þinginu þrátt fyrir að vera ekki með meiri hluta á Alþingi.“ Þegar skorið var á þann hnút með nýtingu á ákvæði þingskaparlaga brást stjórnarandstaðan við með því að hóta afleiðingum langt inn í framtíðina. Á síðustu mánuðum hafa verið send skýr skilaboð um að íslensk stjórnmál virki. Að ríkisstjórn sem hefur skýrt pólitískt umboð sé tilbúin að ráðast í mál sem skipta fólkið í landinu raunverulegu máli, taka ábyrgð á þeim málum og tryggja að þau fái lýðræðislega afgreiðslu. Með því er verið að hafna stjórnmálum umslaga, þar sem ráðandi öflum er sagt hvað þau eigi að gera. Í staðinn erum við að taka ákvarðanir á grundvelli almannahagsmuna, veita svigrúm fyrir vandaða umræðu en tryggja að hér sé ekki til staðar neitunarvald minni hlutans. Á Íslandi er nefnilega lýðræði. Því megum við aldrei gleyma. Höfundur er framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar.
Skoðun Stjórnmál sem virka og lýðræði sem kemst ekki fyrir í umslagi Þórður Snær Júlíusson skrifar
Skoðun Þversögn Íslands í Palestínumálinu: Um fullveldi, samsekt og réttarríkið Gína Júlía Waltersdóttir skrifar
Skoðun Gervigreind í skólum: Tækifæri til byltingar eða hætta á nýjum ójöfnuði? Sigvaldi Einarsson skrifar
Skoðun Flugnám -Þriðji hluti: Samtvinnað (Integrated) eða áfangaskipt (Modular) ATPL flugnám Matthías Arngrímsson skrifar
Skoðun Ursula Von der Leyen styður stríðsglæpamenn - Ísland á ekki að þegja Helen Ólafsdóttir skrifar
Skoðun Á hvaða vegferð er ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur gagnvart sjávarútvegssveitarfélögunum? Anton Guðmundsson skrifar