Skoðun

Hver bjó til ehf-gat?

Sigríður Á. Andersen skrifar

Samfylkingin heldur því fram að svonefnt „ehf-gat“ sé verulegt vandamál í skattkerfinu. Dæmin sem Samfylkingin hefur áhyggjur af eru sjálfstæðum atvinnurekanda (t.d. iðnaðarmanni) sem á tvo kosti í rekstri fyrirtækis þegar auknar tekjur koma í kassann. 

I. Greiða sér laun: 

Þegar greitt er tryggingagjald (6,35%) og hæsti tekjuskattur (46,28%) af því sem eftir stendur sem laun er virkt jaðarskatthlutfall í kringum 49%. Á það ber þó að líta skatthlutfallið af heildarlaunum er mun lægra að teknu tilliti til persónuafsláttar og lægri skattþrepa. 

II. Greiða sér arð: 

Þegar greiddur er tekjuskattur fyrirtækja (20%) af hagnaði og svo fjármagnstekjuskattur (23%) af fengnum arði er virkt skatthlutfall um 38%. Við fyrstu sýn kann að virðast vera gat þarna. En iðnaðarmaðurinn þarf í fyrsta lagi að greiða sér ákveðin laun (reiknað endurgjald). Hann getur því ekki greitt hagnað út sem arð án þess að greiða sér laun fyrst. 

Í öðru lagi er hann búinn að binda fé í atvinnurekstri, leggja út fyrir tólum og tækjum og jafnvel húsnæði ásamt því að ráða fólk í vinnu. Það þarf að vera einhver ávinningur af því að leggja út í þá áhættu sem atvinnurekstur ætíð er. Vonin um að fjárfesting og vinna skili hagnaði er helsti hvatinn í atvinnulífinu. Viljum við draga úr þeim hvata? Það geta ekki allir verið verkefnastjórar verkefnastofu á verkefnasviði í ráðhúsi Reykjavíkur. 

En gott og vel gefum okkur rökræðunnar vegna að þarna sé gat. Hvernig varð það til? Jú það varð fyrst og fremst til þegar Samfylkingin hækkaði tekjuskatt einstaklinga í 46% síðast þegar hún var í ríkisstjórn. Þar er hæsta skatthlutfallið því miður enn. Ef ehf-gatið er á annað borð til þá bjó Samfylkingin það til. Og til að loka gatinu sem varð til þegar Samfylkingin hækkaði skatta á laun ætlar hún nú að hækka skatta á hagnað og arð. 

Samfylking bjó sem sagt þetta meinta gat til sjálf með því að hækka einn skatt og ætlar að loka því … með því að hækka fleiri skatta. 

Höfundur skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík norður.




Skoðun

Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir,Elíza Geirsdóttir Newman,Helga Ragnarsdóttir,Katla Vigdís Vernharðsdóttir,Lára Rúnarsdóttir,Lilja Sól Helgadóttir,Sóley Stefánsdóttir,Steinunn Camilla Stones skrifar

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×