Jón Axel og félagar höfðu yfirhöndina frá upphafi leiks og náðu rúmlega tíu stiga forskoti strax í fyrsta leikhluta. Liðið hélt uppteknum hætti í öðrum leikhluta og leiddi með sjö stigum í hálfleik, 44-37.
Heimamenn náðu svo mest 17 stiga forskoti í þriðja leikhluta og unnu að lokum nokkuð öruggan tíu stiga sigur, 79-69.
Jón Axel var atkvæðamikill í liði heimamanna í kvöld og skoraði 11 stig, ásamt því að taka fjögur fráköst og gefa þrjár stoðsendingar. San Pablo Burgos er enn með fullt hús stiga eftir fimm umferðir og trónir á toppi deildarinnar.