Kaupin á eyrinni Hjörtur J. Guðmundsson skrifar 4. júlí 2024 07:30 Fremur erfitt er að taka ekki íbúafjölda Íslands inn í myndina í umræðum um Evrópusambandið þegar fyrir liggur að mælikvarðinn á vægi ríkja innan sambandsins er fyrst og fremst hversu fjölmenn þau eru. Hér er einfaldlega um að ræða reglur Evrópusambandsins sem kveðið er á um í Lissabon-sáttmála þess og við Íslendingar værum lagalega bundnir af ef til þess kæmi á einhverjum tímapunkti að við gengjum í sambandið. Þessar reglur eru ekki upp á punt heldur ráða því í langflestum tilfellum hvað nær fram að ganga innan þess. Fyrirfram hefði ég talið að miklir stuðningsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið, eins og Ingólfur Sverrisson, væri með það á hreinu hvernig kaupin gerðust á eyrinni innan sambandsins í þeim efnum. Sem betur fer er auðvelt að kynna sér það á vefsíðum Evrópusambandsins. Til að mynda er að finna hina ágætustu reiknivél á vef ráðherraráðs sambandsins þar sem reikna má út vægi einstakra ríkja þess við ákvarðanatöku í ráðinu. Það er því auðvelt bæði fyrir Ingólf og aðra að kynna sér málið. Í boði Evrópusambandsins. Ég hef þegar bent Ingólfi á þessar staðreyndir í fyrri svargrein minni á Vísir.is. Þrátt fyrir það vill hann afram meina að lögbundið vægi ríkja Evrópusambandsins innan þess skipti engu máli. Það eina sem máli skipti sé að færa góð rök fyrir máli sínu innan Evrópusambandsins. Þá yrðu ákvarðanir teknar á vettvangi þess sem hentuðu okkar hagsmunum. Þó það væri fjölmennari ríkjum innan sambandsins ekki að skapi og færi jafnvel gegn þeirra eigin hagsmunum. Langur vegur er hins vegar frá því að það samræmist veruleikanum. „Við áttum aldrei möguleika“ Fjölmörg dæmi eru þannig um það að margfalt fjölmennari ríki en Ísland hafi beðið lægri hlut í ráðherraráði Evrópusambandsins þegar mikilvægir hagsmunir þeirra hafa verið í húfi. Líkt og þegar Írar, sem eru rúmar sjö milljónir, urðu um árið að sætta sig við makrílsamning við Færeyinga þvert á eigin hagsmuni. Ekki vantaði að írsk stjórnvöld hafi barizt af alefli gegn málinu eða að þingmenn stjórnarflokksins Fine Gael á þingi sambandsins hafi átt aðild að stærsta þingflokki þess. Allt kom fyrir ekki. Írar urðu að kyngja samningnum. „Ríkisstjórn okkar og [Simon] Coveney sjávarútvegsráðherra börðust af hörku gegn þessu en þetta snýst allt um atkvæði á vettvangi Evrópusambandsins. Þýzkaland hafði ekki áhuga á þessu og Bretland vildi aðeins binda endi á bannið á innflutningi á fiski frá Færeyjum. Írland er aðeins lítill fiskur í þessari tjörn. Við áttum aldrei möguleika,“ sagði Martin Howley, formaður Samtaka sjómanna í Killybegs, stærsta útgerðarbæ Írlands, við írska dagblaðið Irish Examiner í kjölfar þess að samningurinn við Færeyinga var undirritaður. Málið er nefnilega einmitt það, „þetta snýst allt um atkvæði á vettvangi Evrópusambandsins“ og fyrst og fremst atkvæði fjölmennustu ríkja þess. Sama átti til dæmis við um Dani þegar þeir urðu að taka þátt í refsiaðgerðum sambandsins gegn Færeyjum, hluta af danska konungdæminu, vegna síldveiða Færeyinga í eigin lögsögu. Dönsk stjórnvöld beittu sér að sama skapi af alefli gegn aðgerðunum og þingmenn stjórnarflokkanna á þingi Evrópusambandsins voru hluti af tveimur af stærstu þingflokkunum. Það skilaði engu. Skilur ekki veruleika eyríkja „Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins virðist, miðað við mörg lagafrumvörp hennar, vera ófær um að skilja veruleika fólks sem býr í fámennunum eyríkjum á jaðri sambandsins,“ hafði dagblaðið Times of Malta eftir Cyrus Engerer, þáverandi þingmanni Verkamannaflokks Möltu á þingi Evrópusambandsins, í marz á síðasta ári þar sem hann gagnrýndi löggjöf sambandsins um kolefnisskatta á samgöngur með flugi en maltnesk stjórnvöld hafa varað mjög við áhrifum hennar á hag eyríkisins sem er líkt og Ísland mjög háð flugsamgöngum. Hafa má í huga í þessu sambandi að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, handhafi framkvæmdavalds þess, hefur ein heimild til þess að leggja fram lagafrumvörp á vettvangi þess. Það væri hliðstætt við það að ríkisstjórnin hér á landi gæti ein lagt fram lagafrumvörp á Alþingi en ekki alþingismenn. Verkamannaflokkur Möltu hefur haldið um stjórnartaumana þar í landi frá árinu 2013. Þingmenn flokksins eru hluti af öðrum stærsta þingflokki þings sambandsins. Það hefur hins vegar dugað þeim afskaplega skammt í þessum efnum. Hins vegar er ekki nóg að vera fjölmennt ríki innan Evrópusambandsins ef ríkið sem um ræðir er á jaðri þess. Þannig gekk Bretland, með sínar rúmlega 67 milljónir íbúa, úr sambandinu meðal annars vegna þess að ekki hefði verið tekið nægjanlega tillit til brezkra hagsmuna við ákvarðanatöku innan þess. Öll þau mál sem Bretar greiddu til að mynda atkvæði gegn í ráðherraráði Evrópusambandsins 1996-2014 voru engu að síður samþykkt og urðu að lögum samkvæmt niðurstöðum rannsóknar samtakanna Business for Britain frá 2014. Vinnuregla ráðherraráðsins Hvað samanburð Ingólfs á NATO og Evrópusambandinu varðar eru allar ákvarðanir innan varnarbandalagsins teknar með einróma samþykki. Ólíkt því sem allajafna gerist innan sambandsins þar sem einróma samþykki heyrir í dag til undantekninga og nær til að mynda hvorki til sjávarútvegs- né orkumála. Þó vitað sé annars að Bandaríkin þrýstu á brezka ráðamenn í landhelgisdeilunum er ljóst að án frumkvæðis íslenzkra ráðamanna hefði efnahagslögsagan ekki verið færð út. Bandaríkjamenn hefðu seint fært hana úr fyrir okkur. Varðandi reglu Evrópusambandsins um hlutfallslegan stöðugleika er í raun einungis um að ræða vinnureglu ráðherraráðs þess við úthlutun aflaheimilda. Reglan á þannig enga stoð í Lissabon-sáttmálanum og er einungis byggð á reglugerð 1380/2013 sem hægt væri auðveldlega að breyta án samþykkis Íslands þó landið væri innan sambandsins enda nær einróma samþykki sem áður segir ekki til sjávarútvegsmála. Þá breytir reglan engu um það að valdið yfir sjávarútvegsmálum er samkvæmt sáttmálanum í höndum sambandsins. Milliríkja- og alþjóðasamstarf miðast annars allajafna við það að ríki sitji við sama borð þegar ákvarðanir eru teknar. Eitt ríki, eitt atkvæði óháð íbúafjölda. Hins vegar er Evrópusambandið komið langt út fyrir það að geta talizt alþjóðasamstarf með eðlilegum formerkjum. Áherzla sambandsins á íbúafjölda í þeim efnum er hins vegar eðlileg í ljósi lokamarkmiðs samrunans innan þess allt frá upphafi um að til verði sambandsríki. Fyrir utan annað er vitanlega lítið gagn að sæti við borðið þegar ekki er einu sinni setið við sama borð. Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál). Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hjörtur J. Guðmundsson Mest lesið Þétting byggðar er ekki vandamálið Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Þrengt að þjóðarleikvanginum Þorvaldur Örlygsson Skoðun Þið voruð í partýinu líka! Gísli Sigurður Gunnlaugsson Skoðun Ert þú drusla? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir Skoðun Hverjir eru komnir með nóg? Nichole Leigh Mosty Skoðun Að leigja okkar eigin innviði Halldóra Mogensen Skoðun Köllum Skjöld Íslands réttu nafni: Rasískt götugengi Ian McDonald Skoðun Lýðheilsan að veði? Willum Þór Þórsson Skoðun Sameiginleg yfirlýsing 28 ríkja um málefni Palestínu, hvers virði er hún? Einar Ólafsson Skoðun Alltof mörg sveitarfélög á Íslandi! Gunnar Alexander Ólafsson Skoðun Skoðun Skoðun Þétting byggðar er ekki vandamálið Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar Skoðun Þrengt að þjóðarleikvanginum Þorvaldur Örlygsson skrifar Skoðun Ert þú drusla? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar Skoðun Sameiginleg yfirlýsing 28 ríkja um málefni Palestínu, hvers virði er hún? Einar Ólafsson skrifar Skoðun Alltof mörg sveitarfélög á Íslandi! Gunnar Alexander Ólafsson skrifar Skoðun Öryggi betur tryggt – fangelsismál færð til nútímans Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar Skoðun Lýðheilsan að veði? Willum Þór Þórsson skrifar Skoðun Evrópusambandsaðild - valdefling íslensks almennings Magnús Árni Skjöld Magnússon skrifar Skoðun Köllum Skjöld Íslands réttu nafni: Rasískt götugengi Ian McDonald skrifar Skoðun Hverjir eru komnir með nóg? Nichole Leigh Mosty skrifar Skoðun Að leigja okkar eigin innviði Halldóra Mogensen skrifar Skoðun Málþóf sem valdníðsla Einar G. Harðarson skrifar Skoðun Klaufaskapur og reynsluleysi? Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Hvernig spyr ég gervigreind til að fá besta svarið? Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar Skoðun Ertu bitur? Björn Leví Gunnarsson skrifar Skoðun Er hægt að læra af draumum? Sigurður Árni Reynisson skrifar Skoðun Afstæði ábyrgðar Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Klassapróf fína fólksins – eða hvernig erfingjar kenna okkur að lifa Sigríður Svanborgardóttir skrifar Skoðun Fjárhagslegt virði vörumerkja Elías Larsen skrifar Skoðun Við ákærum – hver sveik strandveiðisjómenn? Kjartan Páll Sveinsson skrifar Skoðun Þið voruð í partýinu líka! Gísli Sigurður Gunnlaugsson skrifar Skoðun Af hverju varð heimsókn framkvæmdastjóra ESB að NATO-fundi? Helen Ólafsdóttir skrifar Skoðun Veimiltítustjórn og tugþúsundir dáinna barna Viðar Hreinsson skrifar Skoðun Bragðefni eru ekki vandamálið - Bann við þeim myndi skaða lýðheilsu Abdullah Shihab Wahid skrifar Skoðun Swuayda blæðir: Hróp sem heimurinn heyrir ekki Mouna Nasr skrifar Skoðun Skattar fyrst, svo allt hitt – og hagræðingin sem gleymdist Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar Skoðun Áfangasigur í baráttunni við hernaðinn gegn heimkynnum villta laxins Ingólfur Ásgeirsson,Árni Baldursson skrifar Skoðun Þetta er allt hinum að kenna! Helgi Brynjarsson skrifar Skoðun Þjóðþrifamálin sem stjórnarandstaðan fórnaði á altari útgerðanna Heimir Már Pétursson skrifar Skoðun Sleppir ekki takinu svo auðveldlega aftur Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Sjá meira
Fremur erfitt er að taka ekki íbúafjölda Íslands inn í myndina í umræðum um Evrópusambandið þegar fyrir liggur að mælikvarðinn á vægi ríkja innan sambandsins er fyrst og fremst hversu fjölmenn þau eru. Hér er einfaldlega um að ræða reglur Evrópusambandsins sem kveðið er á um í Lissabon-sáttmála þess og við Íslendingar værum lagalega bundnir af ef til þess kæmi á einhverjum tímapunkti að við gengjum í sambandið. Þessar reglur eru ekki upp á punt heldur ráða því í langflestum tilfellum hvað nær fram að ganga innan þess. Fyrirfram hefði ég talið að miklir stuðningsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið, eins og Ingólfur Sverrisson, væri með það á hreinu hvernig kaupin gerðust á eyrinni innan sambandsins í þeim efnum. Sem betur fer er auðvelt að kynna sér það á vefsíðum Evrópusambandsins. Til að mynda er að finna hina ágætustu reiknivél á vef ráðherraráðs sambandsins þar sem reikna má út vægi einstakra ríkja þess við ákvarðanatöku í ráðinu. Það er því auðvelt bæði fyrir Ingólf og aðra að kynna sér málið. Í boði Evrópusambandsins. Ég hef þegar bent Ingólfi á þessar staðreyndir í fyrri svargrein minni á Vísir.is. Þrátt fyrir það vill hann afram meina að lögbundið vægi ríkja Evrópusambandsins innan þess skipti engu máli. Það eina sem máli skipti sé að færa góð rök fyrir máli sínu innan Evrópusambandsins. Þá yrðu ákvarðanir teknar á vettvangi þess sem hentuðu okkar hagsmunum. Þó það væri fjölmennari ríkjum innan sambandsins ekki að skapi og færi jafnvel gegn þeirra eigin hagsmunum. Langur vegur er hins vegar frá því að það samræmist veruleikanum. „Við áttum aldrei möguleika“ Fjölmörg dæmi eru þannig um það að margfalt fjölmennari ríki en Ísland hafi beðið lægri hlut í ráðherraráði Evrópusambandsins þegar mikilvægir hagsmunir þeirra hafa verið í húfi. Líkt og þegar Írar, sem eru rúmar sjö milljónir, urðu um árið að sætta sig við makrílsamning við Færeyinga þvert á eigin hagsmuni. Ekki vantaði að írsk stjórnvöld hafi barizt af alefli gegn málinu eða að þingmenn stjórnarflokksins Fine Gael á þingi sambandsins hafi átt aðild að stærsta þingflokki þess. Allt kom fyrir ekki. Írar urðu að kyngja samningnum. „Ríkisstjórn okkar og [Simon] Coveney sjávarútvegsráðherra börðust af hörku gegn þessu en þetta snýst allt um atkvæði á vettvangi Evrópusambandsins. Þýzkaland hafði ekki áhuga á þessu og Bretland vildi aðeins binda endi á bannið á innflutningi á fiski frá Færeyjum. Írland er aðeins lítill fiskur í þessari tjörn. Við áttum aldrei möguleika,“ sagði Martin Howley, formaður Samtaka sjómanna í Killybegs, stærsta útgerðarbæ Írlands, við írska dagblaðið Irish Examiner í kjölfar þess að samningurinn við Færeyinga var undirritaður. Málið er nefnilega einmitt það, „þetta snýst allt um atkvæði á vettvangi Evrópusambandsins“ og fyrst og fremst atkvæði fjölmennustu ríkja þess. Sama átti til dæmis við um Dani þegar þeir urðu að taka þátt í refsiaðgerðum sambandsins gegn Færeyjum, hluta af danska konungdæminu, vegna síldveiða Færeyinga í eigin lögsögu. Dönsk stjórnvöld beittu sér að sama skapi af alefli gegn aðgerðunum og þingmenn stjórnarflokkanna á þingi Evrópusambandsins voru hluti af tveimur af stærstu þingflokkunum. Það skilaði engu. Skilur ekki veruleika eyríkja „Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins virðist, miðað við mörg lagafrumvörp hennar, vera ófær um að skilja veruleika fólks sem býr í fámennunum eyríkjum á jaðri sambandsins,“ hafði dagblaðið Times of Malta eftir Cyrus Engerer, þáverandi þingmanni Verkamannaflokks Möltu á þingi Evrópusambandsins, í marz á síðasta ári þar sem hann gagnrýndi löggjöf sambandsins um kolefnisskatta á samgöngur með flugi en maltnesk stjórnvöld hafa varað mjög við áhrifum hennar á hag eyríkisins sem er líkt og Ísland mjög háð flugsamgöngum. Hafa má í huga í þessu sambandi að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, handhafi framkvæmdavalds þess, hefur ein heimild til þess að leggja fram lagafrumvörp á vettvangi þess. Það væri hliðstætt við það að ríkisstjórnin hér á landi gæti ein lagt fram lagafrumvörp á Alþingi en ekki alþingismenn. Verkamannaflokkur Möltu hefur haldið um stjórnartaumana þar í landi frá árinu 2013. Þingmenn flokksins eru hluti af öðrum stærsta þingflokki þings sambandsins. Það hefur hins vegar dugað þeim afskaplega skammt í þessum efnum. Hins vegar er ekki nóg að vera fjölmennt ríki innan Evrópusambandsins ef ríkið sem um ræðir er á jaðri þess. Þannig gekk Bretland, með sínar rúmlega 67 milljónir íbúa, úr sambandinu meðal annars vegna þess að ekki hefði verið tekið nægjanlega tillit til brezkra hagsmuna við ákvarðanatöku innan þess. Öll þau mál sem Bretar greiddu til að mynda atkvæði gegn í ráðherraráði Evrópusambandsins 1996-2014 voru engu að síður samþykkt og urðu að lögum samkvæmt niðurstöðum rannsóknar samtakanna Business for Britain frá 2014. Vinnuregla ráðherraráðsins Hvað samanburð Ingólfs á NATO og Evrópusambandinu varðar eru allar ákvarðanir innan varnarbandalagsins teknar með einróma samþykki. Ólíkt því sem allajafna gerist innan sambandsins þar sem einróma samþykki heyrir í dag til undantekninga og nær til að mynda hvorki til sjávarútvegs- né orkumála. Þó vitað sé annars að Bandaríkin þrýstu á brezka ráðamenn í landhelgisdeilunum er ljóst að án frumkvæðis íslenzkra ráðamanna hefði efnahagslögsagan ekki verið færð út. Bandaríkjamenn hefðu seint fært hana úr fyrir okkur. Varðandi reglu Evrópusambandsins um hlutfallslegan stöðugleika er í raun einungis um að ræða vinnureglu ráðherraráðs þess við úthlutun aflaheimilda. Reglan á þannig enga stoð í Lissabon-sáttmálanum og er einungis byggð á reglugerð 1380/2013 sem hægt væri auðveldlega að breyta án samþykkis Íslands þó landið væri innan sambandsins enda nær einróma samþykki sem áður segir ekki til sjávarútvegsmála. Þá breytir reglan engu um það að valdið yfir sjávarútvegsmálum er samkvæmt sáttmálanum í höndum sambandsins. Milliríkja- og alþjóðasamstarf miðast annars allajafna við það að ríki sitji við sama borð þegar ákvarðanir eru teknar. Eitt ríki, eitt atkvæði óháð íbúafjölda. Hins vegar er Evrópusambandið komið langt út fyrir það að geta talizt alþjóðasamstarf með eðlilegum formerkjum. Áherzla sambandsins á íbúafjölda í þeim efnum er hins vegar eðlileg í ljósi lokamarkmiðs samrunans innan þess allt frá upphafi um að til verði sambandsríki. Fyrir utan annað er vitanlega lítið gagn að sæti við borðið þegar ekki er einu sinni setið við sama borð. Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).
Ert þú drusla? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir Skoðun
Skoðun Ert þú drusla? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar
Skoðun Sameiginleg yfirlýsing 28 ríkja um málefni Palestínu, hvers virði er hún? Einar Ólafsson skrifar
Skoðun Öryggi betur tryggt – fangelsismál færð til nútímans Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar
Skoðun Klassapróf fína fólksins – eða hvernig erfingjar kenna okkur að lifa Sigríður Svanborgardóttir skrifar
Skoðun Bragðefni eru ekki vandamálið - Bann við þeim myndi skaða lýðheilsu Abdullah Shihab Wahid skrifar
Skoðun Skattar fyrst, svo allt hitt – og hagræðingin sem gleymdist Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar
Skoðun Áfangasigur í baráttunni við hernaðinn gegn heimkynnum villta laxins Ingólfur Ásgeirsson,Árni Baldursson skrifar
Skoðun Þjóðþrifamálin sem stjórnarandstaðan fórnaði á altari útgerðanna Heimir Már Pétursson skrifar
Ert þú drusla? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir Skoðun