Handbolti

Sakaður um til­raun til nauðgunar en sektaður fyrir að bera sig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Varð Evrópumeistari með Frakklandi í janúar á þessu ári.
Varð Evrópumeistari með Frakklandi í janúar á þessu ári. EPA-EFE/Guillaume Horcajuelo

Benoît Kounkoud, samherji Hauks Þrastarsonar hjá Kielce í Póllandi og leikmaður franska landsliðsins í handbolta, var á mánudag sektaður fyrir að bera sig á almannafæri. Hann var upprunalega sakaður um tilraun til nauðgunar.

Dómstóll í París sektaði hinn 27 ára gamla Kounkoud um 4100 evrur (615 þúsund íslenskar krónur) yfir ósæmilega hegðun vegna atviks sem átti sér stað á skemmtistað í janúar á þessu ári.

Kounkoud var þá ásamt öðrum leikmönnum franska landsliðsins að fagna því að hafa sigrað Evrópumót karla í handbolta skömmu áður.

Konan sagði Kounkoud hafa reynt að nauðga sér en dómstóllinn var ekki sama sinnis. Var leikmaðurinn sektaður fyrir að bera sig á almannafæri.

Þegar málið kom upp í janúar neitaði franska handknattleikssambandið að tjá sig en tók fram að það væri á móti öllu ofbeldi. Áður en dómur var kveðinn upp í París var Kounkoud valinn í æfingahóp Frakklands fyrir Ólympíuleikana sem fram fara í París í sumar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×