Viðskipti innlent

Öfug­þróun að minni verð­mæti komi af hverjum ferða­manni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Sigurjón Ólason

Ferðaþjónustan er að stefna í öfuga átt miðað við það markmið að hver ferðamaður skili meiri verðmætum í stað stöðugrar fjölgunar ferðamanna. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir aukna markaðssetningu einu leiðina til að snúa þessari öfugþróun við.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram að á sama tíma og komum ferðamanna til landsins fjölgaði um sex prósent fyrstu fjóra mánuði ársins þá fækkaði gistinóttum um sex prósent. Jafnframt sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, að bókanir á gististöðum fyrir sumarið væru tíu til fimmtán prósentum færri núna miðað við sama tíma í fyrra.

Mynd úr herferðinni Let it out eða öskurherferð Inspired by Iceland, sem farið var í eftir covid-heimsfaraldurinn.Vísir/Íslandsstofa

„Aðaláhyggjuefni okkar er að sjálfsögðu það að þetta er að fara í öfuga átt við það sem við viljum sjá þróunina. Við viljum ekki sjá fleiri og fleiri ferðamenn aftur, við vildum sjá meiri og meiri verðmæti af hverjum ferðamanni og að gistinætur hvers og dvalarlengd hvers ferðamanns lengist. Það er sameiginlegt markmið allra sem standa í þessu,” segir Jóhannes í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Hann segir aukna landkynningu eina svarið við þessari öfugþróun.

„Samkeppnisríkin eru líka búin að taka sig verulega á í markaðssetningu, neytendamarkaðssetningu, sem við í rauninni höfum ekki verið að sinna síðan 2022 að neinu marki. Við stóðum okkur vel í faraldrinum en eftir það, þegar aðrir fóru af stað, þá hefur verið slökkt á fjármagni í það hér á landi.”

Skjáskot úr myndbandinu Inspired by Iceland, markaðsátaki sem farið var í eftir eldgosið í Eyjafjallajökli 2010.

Hann segir þetta sameiginlegt verkefni ríkisins og ferðaþjónustufyrirtækja.

„Þetta er tvennskonar. Ríkið sér um „brand marketing” eða markaðssetninguna mörkun Íslands sem áfangastaðar. Að segja frá hvað Ísland er og að Ísland sé til og að það sé skynsamlegt að ferðast hingað.

Fyrirtækin hins vegar sinna síðan sölumarkaðssetningunni og leggja gríðarlegt fé í það. Hún skilar langmestum árangri ef að ríkið leggur til þessa áfangastaða markaðssetningu, sem að eiginlega öll lönd í kringum okkur eru að gera. Og að auka við um þessar mundir,” segir Jóhannes Þór Skúlason.

Hér var sagt frá verðlaunum Íslandsstofu fyrir öskurherferðina eftir covid-heimsfaraldurinn árið 2021:

Hér má sjá umfjöllun Íslands í dag árið 2010 um markaðsátakið sem farið var í eftir eldgosið í Eyjafjallajökli:


Tengdar fréttir

Setur 100 milljónir í að leiðrétta erlendan fréttaflutning um eldgosin

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála- og viðskiptaráðherra, hefur sett 100 milljónir í markaðssetningu til að svara og leiðrétta erlendan fréttaflutning um stöðuna á Íslandi í kjölfar eldsumbrotanna síðustu mánuði. Peningurinn rennur til Íslandsstofu, áhrifavalda og fleiri aðila.

Ekki markmiðið að fjölga ferðamönnum heldur hámarka arðsemi þeirra

„Við þurfum að passa svolítið hvernig við tölum um ferðaþjónustuna. Fólk talar stundum á svolítið óvæginn hátt um ferðaþjónustuna, og ég er alveg ekki viss um að það sé henni eða okkur til tekna að tala um að Ísland sé uppselt eða að þurfi að loka landinu eða að við séum að drukkna í ferðamönnum,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu.

Öskurherferðin hlýtur virt verðlaun

Íslandsstofa hlaut í vikunni virt markaðsverðlaun hjá bandaríska fagtímaritinu Digiday fyrir öskurherferðina Let it Out síðasta sumar. Dómarar eru meðal annars frá bandarísku fjölmiðlunum CBS, New York Times, Bloomberg og Forbes. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×