Körfubolti

Holiday hetjan og Celtics einum leik frá því að sópa Pacers í sumar­frí

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jrue Holiday yfirsteig veikindi og reyndist hetja Celtics.
Jrue Holiday yfirsteig veikindi og reyndist hetja Celtics. Winslow Townson/Getty Images

Boston Celtics tóku afgerandi 3-0 forystu í úrslitaeinvígi austurdeildar NBA gegn Indiana Pacers með 114-111 sigri í nótt.

Indiana Pacers voru við stjórnvölinn lengst af í leiknum og héldu góðri forystu fram undir lok þriðja leikhluta. Þá rifu Celtics sig í gang eftir að hafa mest verið 18 stigum undir og tókst að minnka muninn í 9 stig áður en þriðji leikhlutinn var úti.

Pacers virtust samt ætla að hafa þetta þrátt fyrir gott áhlaup Celtics. Heimamenn héldu þeim í hæfilegri fjarlægð, alveg þangað til tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Þá tóku Celtics 12-4 áhlaup, frá 99-107 undir en jöfnuðu leikinn 111-111.

Jrue Holiday var sá sem jafnaði metin með keyrslu á körfuna, fékk villu og setti niður aukaskotið til að hleypa Celtics yfir 112-111 þegar 39 sekúndur voru eftir af leiknum.

Hann var að glíma við einhverja pest, missti af morgunæfingu liðsins og allt leit út fyrir að hann myndi ekkert spila í leiknum. En á ögurstundu steig hann upp fyrir Celtics.

Hvorugu liði tókst að skora í næstu sókn, Pacers fengu það sem allir héldu að væri lokasóknin og tækifæri til að komast yfir, Andrew Nembhard keyrði upp völlinn en Jrue Holiday stal boltanum, sótti villu og innsiglaði sigur Celtics á síðustu sekúndum leiksins.

Ótrúlegur viðsnúningur og þrautseigja. Celtics í afar öruggri stöðu og geta sópað Pacers í sumarfrí með sigri í næsta leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×