Golf

Stjarnan hand­tekin á leiðinni á völlinn: „Hann er á leið í fangelsi“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Scheffler leiddur í lögreglubíl í handjárnum.
Scheffler leiddur í lögreglubíl í handjárnum. Vísir/Skjáskot

Fremsti kylfingur heims, Scottie Scheffler, var handtekinn við Valhalla-völlinn í Louisville í Kentucky. Hann er á meðal þátttakanda á PGA-meistaramótinu sem fer þar fram.

„Akkúrat núna er hann á leið í fangelsi og það er ekkert sem þú getur gert í því,“ heyrist í lögreglumanni á myndbandsupptöku af því þegar Scheffler var leiddur í lögreglubíl í handjárnum.

Fyrr í morgun varð banaslys við völlinn sem leiddi til þess að keppni var frestað um klukkustund. Mikil umferðarteppa myndaðist vegna slyssins og Scheffler reyndi að forðast teppuna og keyrði framhjá henni. Það var í óþökk lögreglumanna sem stöðvuðu hann.

Lögreglan handtók Scheffler vegna tilburða hans í umferðinni, setti hann í handjárn og keyrðu með hann á brott í lögreglubíl.

Ekki er ljóst hverjir eftirmálar af atvikinu verða en það virðist sem hann þurfi að fara á lögreglustöð í skýrslutöku áður en lengra er haldið.

„Lögreglumaðurinn öskraði á Scheffler og sagði honum að fara út úr bílnum. Þegar Scheffler steig út ýtti lögreglumaðurinn honum upp að bílnum að setti hann strax í handjárn. Hann situr nú í aftursæti lögreglubílsins,“ segir Jeff Darlington, fréttamaður á ESPN, á samfélagsmiðlinum X en hann varð vitni að atvikinu.

Scheffler hefur raðað inn titlum síðustu misseri og er sem stendur efstur á heimslistanum.

Hann lék á fjórum höggum undir pari á fyrsta hring PGA-meistaramótsins í gær og er jafn í tólfta sæti á mótinu. Xander Schauffele leiðir á níu höggum undir pari.

PGA-meistaramótið er í beinni á Stöð 2 Sport 4 alla helgina en bein útsending hefst klukkan 18:00 á Stöð 2 Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×