Handbolti

Elín Jóna færir sig á milli fé­laga á Jót­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elín Jóna verður áfram í Danmörku.
Elín Jóna verður áfram í Danmörku. Vísir/Anton Brink

Landsliðsmarkvörðurinn Elín Jóna Þórsteinsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við danska efstu deildarliðið Árósir United. Hún lék áður með EH Álaborg en liðið tryggði sér sæti í efstu deild á nýafstöðnu tímabili.

Elín Jóna hefur undanfarin ár verið einn albesti handboltamarkvörður Íslands og fór nýverið á kostum með landsliðinu.

Hún semur nú við lið sem er í góðu sambandi við íslenska leikmenn. Birna Berg Haraldsdóttir spilaði með liðinu frá 2017 til 2019 og Thea Imani Sturludóttir lék með félaginu frá sumrinu 2020 til janúar 2021.

Á vefsíðu félagsins segir Elín Jóna spennt fyrir nýrri áskorun og að henni lítist vel á hugmyndir íþróttastjóra félagsins, Bjarne Jakobsen.

„Ég hef ákveðið að skipta yfir til Árósa United þar sem það er spennandi verkefni í gangi og félagið hefur mikinn metnað. Ég er spennt fyrir nýrri áskorun og að halda áfram að þroskast,“ sagði hin 27 ára gamla Elín meðal annars í sínu fyrsta viðtali sem leikmaður Árósa United. 

„Í Elínu erum við að fá hæfileikaríkan markvörð sem gefur alltaf 100 prósent. Hún og Sabine Englert eiga án efa eftir að mynda frábært tvíeyki í markinu. Þá er frábært að félagið geti sótt leikmenn í þeim gæðaflokki sem Elín er í,“ sagði íþróttasjórinn Bjarne um komu landsliðsmarkvarðar Íslands.

Elín hefur spilað í Danmörku síðan árið 2018 en þar áður spilaði hún með Gróttu og Haukum hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×