Umræðan

Skiljan­leg á­kvörðun að selja ekki vef­miðla og út­varps­stöðvar

Halldór Kristmannsson skrifar

Stjórn Sýnar ákvað þann 19. apríl síðastliðinn að hætta frekari skoðun á framtíðareignarhaldi á rekstrareiningunni Vefmiðlar og útvarp. Þetta þýðir að þreifingum um sölu á miðlum fyrirtækisins hefur verið hætt. Þrátt fyrir mikinn áhuga fjárfesta var það samhljóma afstaða stjórnar, lykilstjórnenda og stærstu hluthafa, að halda áfram að auka sérstöðu og verðmæti miðlanna. Innan fyrirtækisins hefur óvissu um eignarhald og framtíðarsýn verið eytt.

Undir lok síðasta árs ákvað stjórn Sýnar að ráðast í stefnumótun fyrir nýja rekstrareiningu vefmiðla og útvarps og endurskoða framtíðareignarhald þeirra. Einingin rekur visir.is, ja.is, bland.is, Bylgjuna, FM957 og X-ið. Fljótlega eftir að tilkynnt var um þreifingar fyrri stjórnar fyrirtækisins, fóru margir að velta fyrir sér hvaða aðilar væru líklegastir til leggja fram kauptilboð. Fjárfestahópur undir forystu Ara Edwald var nefndur til sögunnar og tjáði hann sig í tvígang við fjölmiðla um framgang málsins. Þá munu aðrir fjárfestar og fjarskiptafélög einnig hafa sýnt miðlunum áhuga. 

Þetta kemur væntanlega fáum á óvart, enda nota 95 prósent landsmanna fjölmiðla Sýnar vikulega og auglýsingasala hefur verið í miklum vexti. Á aðalfundi Sýnar fyrr í þessum mánuði, greindi forstjóri félagsins frá því að mjög góður gangur væri í auglýsingasölu á fyrsta ársfjórðungi. Á sama tíma upplýsti hún um 46 prósent tekjuvöxt í auglýsingasölu á fjórða ársfjórðungi 2023. Jafnframt eru bundnar góðar vonir við að opin dagskrá kvöldfrétta Stöðvar 2 auki slagkraft í auglýsingasölu enn frekar.

Jafnvel þó að væntanlegir kaupendur hefðu verið reiðubúnir að greiða 6 til 7 milljarða króna fyrir miðlana, tel ég það ekki ásættanlegt verð í ljósi mikils vaxtar og aukinnar arðsemi þeirra. Hvers vegna skyldi Sýn selja frá sér vaxtarbrodd fyrirtækisins í hávaxtaumhverfi sem nú ríkir, á meðan samkeppnisaðilar keppast við að finna tækifæri til vaxtar? Hugmyndin var fráleit og ég fagna niðurstöðunni.

Markaðsvirði Sýnar í dag er um 11,7 milljarðar króna, eftir að hafa legið í kringum 9,5 milljarða króna fyrir nokkrum viku. Ég kom nýlega aftur inn í hluthafahóp Sýnar og fagna ákvörðun stjórnar um að selja ekki miðla fyrirtækisins.

Með tilliti til vaxtamöguleika miðla, væntrar arðsemi á þessu ári, nýlegra kennitalna auglýsingafyrirtækja (BBI, Dengsi og Billboard) sem Síminn keypti í janúar síðastliðinn á 5,2 milljarða króna (10 til 11X EBITDA), má ætla að verðmæti miðla Sýnar sé að minnsta kosti 8 til 10 milljarðar króna virði í dag, jafnvel þó að nokkuð lægri arðsemiskennitala séu lögð til grundvallar. Með alþingis – og sveitastjórnarkosningar á næsta leiti, væntingar um að staðið verði við loforð um að minni umsvif RÚV á auglýsingamarkaði og hagstæðara vaxtaumhverfi á næstu misserum, er hagur hluthafa fólginn í því að styrkja enn frekar þessa starfsemi. Í þessu samhengi má ekki gleyma verðmætustu eign Sýnar, fjarskiptafélaginu Vodafone og upplýsingatæknifyrirtækinu Endor, sem ég tel að flestir séu sammála um að séu líklega tvöfalt verðmætari en miðlar fyrirtækisins.

Markaðsvirði Sýnar í dag er um 11,7 milljarðar króna, eftir að hafa legið í kringum 9,5 milljarða króna fyrir nokkrum viku. Ég kom nýlega aftur inn í hluthafahóp Sýnar og fagna ákvörðun stjórnar um að selja ekki miðla fyrirtækisins. Frekar vil ég styðja nýjan forstjóra í þeirri vegferð að straumlínulaga rekstur enn frekar, nýta vaxtartækifæri miðla og upplýsingatæknifyrirtækisins Endor, ásamt því að bæta arðsemi Vodafone. Ég á fastlega von á því að góður stígandi verði í arðsemi Sýnar á þessu ári, eftir því sem hagræðingaaðgerðir skila sér. Líkt og flestir vita sem fylgjast með félaginu, eru þriðji og fjórði ársfjórðungar að jafnaði þeir bestu. Það kæmi mér ekki á óvart að markaðsvirði Sýnar muni á næstunni endurspegla betur verðmæti undirliggjandi eigna, mikinn vöxt í auglýsingasölu og stigvaxandi arðsemi, eftir því sem áhrif hagræðingaaðgerða koma fram.

Höfundur er búsettur í Sviss, rekur eigið ráðgjafafyrirtæki, Aviva Communication, og sinnir eigin fjárfestingum. Hann og tengdir aðilar eiga tæplega 4% hlut í Sýn.

Innherji er undir hatti Sýnar hf.


Tengdar fréttir

Sýn hættir við að selja vef­miðla og út­varp

Stjórn Sýnar er hætt við að skoða frekar sölu á vefmiðla- og útvarpseiningu sinni. Forstjóri félagsins segir mikil verðmæti fyrir Sýn að hafa einigarnar áfram innan Sýnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×