Íslenski boltinn

Besta-spáin 2024: Fiðringur í Firðinum

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir FH 4. sæti Bestu deildar kvenna í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
FH-ingar fagna marki á síðasta tímabili. vísir/hulda margrét

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir FH 4. sæti Bestu deildar kvenna í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild kvenna með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með tveimur leikjum sunnudaginn 21. apríl.

Íþróttadeild spáir FH 4. sæti Bestu deildarinnar í sumar og liðið fari upp um tvö sæti frá því í fyrra.

Fæstir gerðu miklar væntingar til FH-inga sem nýliða í Bestu deildinni í fyrra. En liðið kom skemmtilega á óvart og eftir átján umferðir var það með jafn mörg stig og Þróttur í 5. sæti deildarinnar. FH-ingar misstu móðinn í úrslitakeppninni og unnu ekki leik þar en enduðu samt í 6. sæti sem þótti fyrirtaks árangur.

grafík/bjarki

Nú þarf FH að taka næsta skref; forðast að sogast ofan í annars tímabils kviksyndið og byggja ofan á árangur síðasta tímabils. Og það vantar ekki metnaðinn í Kaplakrika, allavega miðað við leikmennina sem liðið hefur fengið í vetur.

Arna Eiríksdóttir, sem lék með FH á láni í fyrra, skipti alfarið yfir í Fimleikafélagið frá Val, Hanna Kallmaier og Ída Marín Hermannsdóttir komu frá sama liði, Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir úr atvinnumennsku, Bryndís Halla Gunnarsdóttir frá Breiðabliki og Breukelen Woodward úr Fram. 

grafík/bjarki

Þetta er mikill liðsstyrkur. Arna, Andrea og Ída hafa leikið landsleiki, Hanna er afar traustur miðjumaður, Bryndís Halla mikið efni og Breukelen skoraði níu mörk í Lengjudeildinni í fyrra.

Af þeim leikmönnum sem eru farnir frá FH munar mestu um Shainu Ashouri sem fór í Víking og fyrirliðann Sunnevu Hrönn Sigurvinsdóttur. En FH-ingar koma klárlega út í plús á félagaskiptamarkaðnum.

Það gæti þó tekið FH-liðið einhvern tíma til að slípa sig saman eftir breytingarnar. Arna, Andrea og Ída spiluðu til að mynda ekkert í Lengjubikarnum. En ef þær komast fljótt inn í hlutina hjá Fimleikafélaginu ætti það að geta átt gott sumar.

Lykilmenn

  • Arna Eiríksdóttir, 21 árs varnarmaður
  • Ída Marín Hermannsdóttir, 21 árs miðjumaður
  • Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir, 21 árs framherji

Fylgist með

Selma Sól Sigurjónsdóttir skoraði tólf mörk fyrir ÍH í 2. deildinni í fyrra eftir að hafa leikið með FH sumarið 2022. Hún er nú komin aftur til Fimleikafélagsins og spilaði alla leiki liðsins í Lengjubikarnum og skoraði þrjú mörk. Sólin hennar Selmu gæti skinið skært í sumar. 

Í besta/versta falli

Ef allt gengur samkvæmt óskum gæti FH híft sig upp í 3. sætið en ef allt fer í steik fer liðið varla neðar en í 6. sæti, sama sæti og það endaði í á síðasta tímabili.


Tengdar fréttir


×