Handbolti

Fé­lagi Ís­lendinganna í á­falli eftir fall á lyfja­prófi

Sindri Sverrisson skrifar
Nikola Portner kveðst saklaus, eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.
Nikola Portner kveðst saklaus, eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. EPA-EFE/CLEMENS BILAN

Liðsfélagi Íslendinganna þriggja hjá Evrópumeisturum Magdeburg, svissneski landsliðsmarkvörðurinn Nikola Portner, er kominn í ótímabundið hlé frá æfingum og keppni í handbolta eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.

Portner er í áfalli yfir tíðindunum og þau virðast koma honum algjörlega í opna skjöldu, en hann heldur fram sakleysi sínu í skrifum á Instagram:

„Kæra Magdeburg og svissneska handboltafjölskylda, kæru stuðningsmenn. Því miður verð ég að segja ykkur þetta: Ég hef fengið að vita að sýni úr mér virðist skila „niðurstöðum sem eru ekki venjulegar“ og þess vegna þarf að bregðast við því,“ skrifar Portner og bætir við:

Ætlar að sanna sakleysi sitt

„Ég er í algjöru áfalli yfir þessum upplýsingum. Mér þykir fyrir því að þessi staða hafi komið upp og ég mun gera allt sem ég get til að sýna að ég hef ekki brotið neinar reglur um lyfjamál, hef alltaf hagað mér í samræmi við gildi íþrótta og mun áfram gera það.“

Í yfirlýsingu frá Magdeburg segir að lítið sé vitað nákvæmlega um ásakanirnar og hvernig framhaldið verði, en að félagið muni styðja Portner í að skýra málið.

Berjast um þrjá titla

Portner hefur varið mark Magdeburg ásamt Spánverjanum Sergey Hernández en nú er ljóst að mikið mun mæða á þeim síðarnefnda því liðið berst um þrjá titla og sá fyrsti gæti komið um helgina.

Magdeburg er í jafnri og harðri baráttu við Füchse Berlín um þýska meistaratitilinn, og liðin mætast á laugardaginn í Köln í undanúrslitum þýska bikarsins. Úrslitaleikurinn er á sunnudag. Þá styttist í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem Magdeburg mætir Kielce.

Með Magdeburg leika Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Janus Daði Smárason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×