Handbolti

Íslendingalið Magdeburg nálgast toppinn á ný

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk fyrir Magdeburg í dag.
Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk fyrir Magdeburg í dag. Gregor Fischer/picture alliance via Getty Images

Íslendingalið Magdeburg vann öruggan níu marka sigur er liðið tók á móti Stuttgart í þýska handboltanum í dag. Liðið er nú aðeins einu stigi frá toppsæti deildarinnar.

Eftir að hafa lent tveimur mörkum undir í upphafi leiks höfðu heimamenn í Magdeburg góða stjórn á leiknum og náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik. Gestirnir klóruðu þó ó bakkann og minnkuðu niður í eitt mark fyrir hlé og staðan var 19-18 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik náði Magdeburg aftur umm fjögurra marka forystu á stuttum tíma áður en liðið jók forskot sitt í átta mörk með góðum kafla þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Þar með voru úrslitin ráðin og heimamenn fögnuðu að lokum níu marka sigri, 40-31.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur Íslendinganna í Magdeburg með sex mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson bætti þremur mörkum við. Janus Daði Smárason komst ekki á blað.

Magdeburg er nú með 48 stig í öðru sæti deildarinnar, einu stigi á eftir toppliði Füchse Berlin. Magdeburg á þó leik til góða og kemur sér á toppinn með sigri í þeim leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×