Handbolti

Stig dugði Hauki ekki til að toppa PSG

Sindri Sverrisson skrifar
Haukur Þrastarson sækir hér að vörn Álaborgar í kvöld.
Haukur Þrastarson sækir hér að vörn Álaborgar í kvöld. EPA-EFE/Henning Bagger

Haukur Þrastarson var í liði Kielce í kvöld þegar pólska liðið gerði jafntefli við Aalborg í Danmörku, 35-35, í lokaumferð A-riðils Meistaradeildar Evrópu í handbolta.

Haukur skoraði eitt mark í leiknum. Aalborg hafði að litlu að keppa í kvöld því fyrir leik var orðið ljóst að liðið gæti ekki náð toppsæti riðilsins af Kiel, en væri öruggt um 2. sæti og þar með farseðil í 8-liða úrslit. 

Haukur og félagar þurfa hins vegar að fara í umspilið um sæti í 8-liða úrslitum, en í umspilið fara liðin sem enduðu í 3.-6. sæti í A-riðli í kvöld og þau sem enda í 3.-6. sæti B-riðils á morgun.

Kielce endaði í 4. sæti með 16 stig en tókst ekki að komast upp fyrir PSG því Frakkarnir unnu Pick Szeged 37-33.

Því er ljóst að Kielce mætir liðinu sem endar í 5. sæti B-riðils, sem verður Montpellier frá Frakklandi eða GOG frá Danmörku.

Óvænt tap hjá Guðmundi og Einari

Í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld varð Fredericia, liðið sem Guðmundur Guðmundsson stýrir og Einar Ólafsson leikur með, að sætta sig við 30-27 tap gegn Skanderborg.

Tapið er óvænt því Fredericia er í 2. sæti deildarinnar með 35 stig eftir 24 leiki. Liðið er fimm stigum á eftir toppliði Aalborg sem nú á leik til góða og líka fimm stigum á undan Bjerringbro/Silkeborg sem einnig á leik til góða. Skanderborg er hins vegar í 10. sæti með 20 stig.


Tengdar fréttir

Sigvaldi frábær en Kiel best

Landsliðsmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson átti frábæran leik fyrir Kolstad þegar norska liðið kvaddi Meistaradeild Evrópu þetta árið með öruggum sigri á Pelister, 34-27.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×