Handbolti

Alltaf það fal­legasta við þetta

Aron Guðmundsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Valur mætir Stjörnunni í einum af tveimur undan­úr­slita­leikjum Powera­de bikarsins í hand­bolta í Laugar­dals­höll í kvöld. Undan­úr­slitin leggjast vel í Óskar Bjarna Óskars­son, þjálfara Vals sem segir alltaf jafn mikil for­réttindi að taka þátt í bikar­há­tíðinni. Þá hrósar hann HSÍ fyrir ein­stak­lega góða um­gjörð í kringum úr­slita­leiki yngri flokka.

Undan­úr­slitin karla megin hefjast í kvöld með téðum leik Vals og Stjörnunnar og svo mætast ÍBV og Haukar einnig. Fram undan eru svo þétt skipaðir dagar í úr­slitum meistara- og yngri flokka í bikar­keppninni og stendur há­tíðin alveg fram á sunnu­dag.

„Þetta leggst bara mjög vel í mig og alltaf mjög gefandi, bæði fyrir leik­menn, þjálfara og fé­lögin, að taka þátt í svona bikar­há­tíð,“ segir Óskar Bjarni, þjálfari Vals í sam­tali við Vísi. „Þetta kryddar vel upp á boltann og allt saman. Maður snertir alltaf á því í kringum svona bikar­há­tíð hversu mikil for­réttindi það eru að taka þátt í henni.“

Hvaða ógnir felast í þessu liði Stjörnunnar sem þið eruð að fara mæta?

„Stjarnan er hefur verið að spila mjög vel núna eftir ára­mót og áttu líka flotta spretti fyrir ára­mót. Þeir eru þéttir, Adam hefur þá verið að verja vel fyrir aftan. Þetta lið er að mínu mati líka búið að bæta sig mjög mikið í hraða­upp­hlaupunum, í raun öllum bylgjum þess. Þá býr liðið yfir góðum leik­mönnum sóknar­lega. Þeir eru með Tandra, Egil og Her­geir til að mynda. Mikið af góðum vopnum í þessu flotta liði sem virðist smám saman alltaf vera að bæta sig.

Þannig að þú átt bara von á hörku­leik?

„Já ekkert ó­svipuðum síðasta leik okkar við þá þar sem að Stjarnan var öflugri í fyrri hálf­leik en við síðustu tuttugu mínútur seinni hálf­leiks. Þetta er bikar­keppnin og síðustu leikir í deild fram að bikar­leikjum hafa oft lítil á­hrif. Þetta er bara þannig hvernig dúkurinn, stemningin og spennu­stigið fer í mann­skapinn í báðum liðum. Þetta verður í það minnsta fjör.

Vals­menn hafa haft í nægu að snúast í vetur. Auk þess að keppa í bikar- og deildar­keppni hér heima er liðið komið langt í Evrópu­bikarnum. En hvernig er að halda öllum þessum boltum á lofti og halda mönnum ferskum og beittum?

„Það er nú bara svo­lítið þannig að í svona stöðu verður þetta að ein­hverjum þéttum takti. Þegar að þú ert búinn að vera spila á tveggja til þriggja daga fresti. Í sjálfu sér hafa æfingarnar kannski verið full ró­legar af því þú ert eigin­lega alltaf yfir höfuð að fara yfir næstu and­stæðinga. En það er bara gaman að spila í öllum þessum keppnum og liðið hefur vanist þessu. Auð­vitað hefur þetta á­hrif og eitt­hvað smá hnjask í mann­skapnum en allir vilja vera með í svona stórum leik.“

HSÍ gert mjög vel

Það eru ekki bara meistara­flokkarnir sem fá að láta ljós sitt skína á bikar­há­tíðinni næstu daga. Fram­tíðar­stjörnur Ís­lands í yngri flokkum fé­laganna mæta einnig til leiks í leikjum með um­gjörð í hæsta gæða­flokki í sínum úr­slita­leikjum.

„Mér finnst það eigin­lega alltaf fal­legast við þetta. Um­gjörðina í kringum úr­slita­leikina hjá yngri flokkunum og þar finnst mér HSÍ hafa gert mjög vel. Fyrst voru þetta alltaf bara fjórði og þriðji flokkur sem að fengu að upp­lifa þessa úr­slita­helgi í bikarnum í Laugar­dals­höll. Nú er búið að fjölga úr­slita­leikjunum niður í fimmta og sjötta flokk.

Krakkarnir fá því að kynnast dúknum, heyra þjóð­sönginn í Laugar­dals­höll og fá smjör­þefinn af öllum her­leg­heitunum í kringum úr­slita­leiki bikarsins mjög snemma á sínum ferli. Aðal­at­riðið er kannski ekki að þú sért að vinna eitt­hvað marga leiki í yngri flokkunum en að vera þarna í Laugar­dals­höll á úr­slita­helginni gefur alveg vel fyrir leik­mennina þegar að þeir eru svo komnir upp í meistara­flokk. Mér finnst þetta fal­legast við helgina og mjög vel gert hjá HSÍ hversu mikil virðing er sýnd yngri flokkunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×