Handbolti

Sjáðu glæsi­mark Andra beint úr aukakasti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andri Már Rúnarsson er í stóru hlutverki hjá Leipzig.
Andri Már Rúnarsson er í stóru hlutverki hjá Leipzig. getty/Andreas Gora

Viggó Kristjánsson átti stórkostlegan leik þegar Leipzig vann stórsigur á Bergischer, 33-22, í þýsku úrvalsdeildinni í gær. Andri Már Rúnarsson skoraði samt líklega flottasta mark leiksins.

Viggó skoraði hvorki fleiri né færri en fjórtán mörk. Auk þess gaf hann fimm stoðsendingar og kom því með beinum hætti að nítján mörkum Leipzig í leiknum.

Andri skoraði tvö mörk en annað þeirra var sérlega glæsilegt. Leipzig fékk þá aukakast í þann mund sem fyrri hálfleikur rann sitt skeið. 

Andri tók aukakastið og þrumaði boltanum yfir varnarvegg Bergischer og yfir markvörðinn, Peter Johannesson, kom Leipzig í 17-10 sem voru hálfleikstölur. Samherjar Andra fögnuðu honum vel enda markið sérlega glæsilegt. Það má sjá hér fyrir neðan.

Leipzig, sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar, er í 13. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með sautján stig. Næsti leikur liðsins er gegn öðru Íslendingaliði, Melsungen, á sunnudaginn.

Andri kom til Leipzig frá Haukum fyrir tímabilið. Hann hefur skorað þrjátíu mörk í þýsku úrvalsdeildinni og gefið 21 stoðsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×