Skoðun

Hita­veitu fyrir Kópa­vog

Ómar Stefánsson skrifar

Í desember 1964 var stofnuð Hitaveita Kópavogs. Nú tæpum 60 árum seinna er tímabært að setja hana í gang að nýju og byrja að leita að heitu vatni, því oft var þörf en nú er nauðsyn. Undanfarin ár hefur það gerst oftar en ekki að fólk á höfuðborgarsvæðinu hefur verið beðið um spara heita vatnið og sundlaugar hafa þurft að loka vegna skorts á heitu vatni.

Það er ljóst að það er hægt að finna heitt vatn víða í landi Kópavogs. Með því að byrja að huga að þessum málum sem fyrst er hægt að vinna að hitaveitu fyrir Kópavog á hagkvæman hátt og skoða vel hvaða svæði henta til notkunar. Sjálfur myndi ég byrja á að leita í landi Kópavogs rétt við Smiðjuveg og Kjarrhólma áður en við förum upp að Lækjarbotnum og þar á austursvæði Kópavogs landsins.

Á undanförnum árum hefur hér á höfuðborgarsvæðinu þurft að loka sundlaugum þar sem á álagstímum hefur Orkuveita Reykjavíkur einfaldlega brugðist í þessum málum. Þannig að þörfin fyrir heitt vatn er mikil hér á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt hefur verð á heitu vatni, til sérstakra nota, hækkað um rúmlega 25% á síðustu fjórum árum, þannig að það má engan tíma missa.

Bæjarstjórn Kópavogs getur nú þegar sett í gang vinnu við undirbúning og með markvissri vinnu gætum við eignast okkar eigin hitaveitu á næstu árum sem gæti veitt Kópavogsbúum og jafnvel fleirum ánægju og vellíðan um ókomna tíð.

Fyrir þau sem hafa áhuga á að skoða heitu svæðin í landi Kópavogs þá er auðvelt að skoða heimasíðu Orkustofnunar.

Kort af Íslandi | Map of Iceland

Höfundur er fyrrverandi bæjarfulltrúi í Kópavogi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×