Handbolti

Hall­dór tekur við HK en ó­víst í hvaða deild

Sindri Sverrisson skrifar
Halldór Jóhann Sigfússon er reynslumikill þjálfari og hefur meðal annars stýrt landsliði Barein.
Halldór Jóhann Sigfússon er reynslumikill þjálfari og hefur meðal annars stýrt landsliði Barein. EPA-EFE/Mohamed Abd El Ghany

Handknattleiksþjálfarinn reyndi Halldór Jóhann Sigfússon er á leið aftur í íslenska boltann frá Danmörku og verður næsti þjálfari karlaliðs HK. Frá þessu er greint á vef HK-inga.

Ekki er ljóst í hvaða deild HK verður þegar Halldór tekur við liðinu en hann mun taka til starfa eftir yfirstandandi tímabil, og er samningur hans til þriggja ára.

HK er í fallbaráttu í Olís-deildinni með 7 stig eftir 13 umferðir, stigi fyrir ofan neðstu liðin sem eru Víkingur og Selfoss.

Í síðasta mánuði var greint frá því að Sebastian Alexandersson, sem stýrt hefur HK frá 2021, myndi hætta þjálfun liðsins í vor, sem og aðstoðarþjálfarinn Guðfinnur Kristmannsson.

Halldór Jóhann er í dag þjálfari Nordsjælland í Danmörku en hann tók við liðinu í fyrrasumar eftir að hafa þjálfað hjá Team Tvis Holstebro. Fyrir skömmu var greint frá því að Halldór myndi hætta hjá Nordsjælland í vor og sagt að fjölskylduaðstæður réðu því.

Halldór hefur þjálfað lengi og meðal annars stýrt Fram, FH og Selfoss hér á landi, auk þess að þjálfa yngri landslið og vera aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins. Þá hefur hann stýrt karlalandsliði Barein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×