Körfubolti

Hildur Björg setur körfuboltaskóna á hilluna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir átti langan og flottan feril sem því miður verður ekki lengri.
Hildur Björg Kjartansdóttir átti langan og flottan feril sem því miður verður ekki lengri. Vísir/Hulda Margrét

Landsliðskonan Hildur Björg Kjartansdóttir hefur ákveðið að ljúka körfuboltaferli sínum en þetta tilkynnti hún á samfélagsmiðlum í dag.

Hildur Björg er önnur lykilmanneskja landsliðsins sem hættir að spila körfubolta á þessu tímabili því áður þurfti Helena Sverrisdóttir einnig að hætta vegna meiðsla.

Hildur er ekki orðin þrítug og ætti því að eiga nóg eftir en hún segir að afleiðingar af mörgum höfuðhöggum hafi áhrif á ákvörðun hennar.

„Boltinn hefur verið gríðarstór hluti af mínu lífi og gefið mér svo margt. Á þessum skemmtilega og farsæla ferli hef ég því miður líka þurft að takast á við erfið höfuðhögg og afleiðingar þeirra sem hefur áhrif á þessa ákvörðun í dag,“ skrifaði Hildur Björg á fésbókarsíðu sína.

Hildur Björg var lengi í hópi bestu körfuboltakvenna landsins og lykilmaður landsliðsins undanfarin áratug.

Hún endaði feril sinn með Val en Hildur spilaði stórt hlutverk þegar Valur varð Íslandsmeistari síðasta vor.

Hildur Björg varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með Val og einu sinni með Snæfelli þar sem hún var uppalin.

Hún lék í þrjú ár með Texas–Rio Grande Valley í bandaríska háskólaboltanum og svo í tvö tímabil á Spáni með Club Baloncesto Leganés og Celta de Vigo Baloncesto. Hildur reyndi einnig fyrir sér hjá BC Namur-Capitale í Belgíu.

Hildur er sautjánda landsleikjahæsta kona sögunnar með 38 leiki fyrir íslenska A-landsliðið. Hún skoraði í þeim 405 stig eða 10,9 að meðaltali í leik. Hildur er aðeins ein af sex sem hafa skorað yfir fjögur hundruð stig fyrir A-landslið kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×