Handbolti

„Náum ekki að fram­kvæma neitt af því sem við ætluðum að gera“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson var eðlilega svekktur eftir leikinn.
Snorri Steinn Guðjónsson var eðlilega svekktur eftir leikinn. Vísir/Vilhelm

Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson var eðlilega súr og svekktur eftir tap Íslands gegn Frakklandi á EM í handbolta í dag.

„Þetta eru bara vonbrigði og léleg frammistaða. Við þurfum ekkert að fara mikið yfir það að varnarleikurinn var náttúrulega vonlaus,“ sagði Snorri að leik loknum.

Hann segir að varnarleikurinn hafi verið það sem hafi valdið honum mestum vonbrigðum í dag, enda fékk liðið á sig 39 mörk.

„Varnarleikurinn og bara það að við náum ekki að framkvæma neitt af því sem við ætluðum að gera. Og við náum ekki að gera neitt af því sem við vorum að gera á móti Þjóðverjum. Við náðum ekkert í þá og vorum bara að bíða og sjá. Ekkert frumkvæði og það bara vantaði bara einhvern dugnað upp á að við myndum ná up einhverjum varnarleik.“

Þá útilokar Snorri ekki að liðinu hafi skort trú á verkefninu.

„Það getur vel verið, en það er erfitt að svara fyrir það núna. Við breytum því samt ekki að við héldum áfram og héldum þessu í leik. Þetta hefði alveg getað verið farið fyrr, en það eru einhverjar glætur þarna. Það getur vel verið að það skorti einhverja trú og auðvitað er hoggið í menn þegar þeir tapa leikjum og þú nærð þér ekki á strik þá er það kannski eðlilegasti hlutur í heimi í íþróttum. En svo er það mitt að reyna að rífa menn í gang.“

Þrátt fyrir tapið voru ljósir punktar í frammistöðu Íslands og ber þar hæst að nefna Óðinn Þór Ríkharpsson í hægra horninu og innkomu Hauks Þrastarsonar í vinstri skyttuna.

„Haukur átti frábæra innkomu og Óðinn líka. Haukur er náttúrulega búinn að vera að spila lítið og Óðinn búinn að eiga erfitt uppdráttar. Þeir sýndu bara úr hverju þeir eru gerðir og áttu góða innkomu,“ sagði Snorri að lokum.

Klippa: Viðtal við Snorra Stein eftir Frakkaleik á EM 2024



Fleiri fréttir

Sjá meira


×