Handbolti

„Hefði tekið starfs­menn af lífi fyrir að kveikja í Ís­lendingunum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslenski þjóðsöngurinn gekk ekki hnökralaust fyrir sig í gær.
Íslenski þjóðsöngurinn gekk ekki hnökralaust fyrir sig í gær. Vísir/Vilhelm

Klúðrið með íslenska þjóðsönginn fyrir leik Þýskalands og Íslands í gær er líklegt til að hafa farið í taugarnar á Alfreð Gíslasyni, þjálfara þýska landsliðsins í handbolta.

Eins og venjan er fyrir leiki á Evrópumótinu í handbolta, sem og aðra landsleiki, voru þjóðsöngvar þjóðanna tveggja spilaðir fyrir viðureign Þýskalands og Íslands í gær. Þýski þjóðsöngurinn gekk hnökralaust fyrir sig, en sá íslenski hikstaði og þurfti tvær tilraunir til að spila hann í heild sinni.

„Er hann vís með að hafa látið einhver heyra það eftir leik fyrir að hafa klúðrað íslenska þjóðsöngnum fyrir leik?“ spurði Aron Guðmundsson, stjórnandi Besta sætisins í gær.

„Miðað við hvað maður hefur heyrt af honum þá væri alveg líklegur til að taka einhvern og kreista hann aðeins fyrir það,“ sagði Bjarni Fritzson, gestur þáttarins og fyrrverandi landsliðsmaður.

Hann velti einnig fyrir sér hvort þetta hafi verið af vilja gert til að reyna að taka íslensku strákana af taugum, en Einar Jónsson var þó ósammála því.

„Ef ég hefði verið Alfreð þá hefði ég tekið starfsmenn af lífi fyrir að kveikja í Íslendingunum út af þessu. Ég sá bara á leikmönnum, og svo byrjuðu allir að púa og allt það, og ég sá bara hvernig leikmenn veðruðust upp við þetta,“ sagði Einar.

Þáttinn má heyra í spilaranum að ofan. Besta sætið er aðgengilegt á öllum helstu hlaðvarpsveitum, t.a.m. á Spotify hér. Hver einasti leikur Íslands á EM verður gerður upp af sérfræðingum í Besta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×