Handbolti

Norð­menn halda í vonina eftir nauð­syn­legan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sander Sagosen skoraði sex mörk fyrir Norðmenn í kvöld.
Sander Sagosen skoraði sex mörk fyrir Norðmenn í kvöld. Stuart Franklin/Getty Images

Noregur vann lífsnauðsynlegan þriggja marka sigur er liðið mætti Hollandi á EM í handbolta í kvöld. Lokatölur 35-32, og sigurinn þýðir að Norðmenn halda enn veika von um sæti í undanúrslitum.

Bæði Norðmenn og Hollendingar voru án stiga fyrir viðureign kvöldsins og því ljóst að tvo afar mikilvæg stig voru í boði.

Leikurinn bar þess merki og var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Liðin skiptust á að hafa forystuna og munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk í fyrri hálfleik. Það voru þó Hollendingar sem fóru með yfirhöndina inn í hálfleikshléið, staðan 16-18.

Norðmenn voru hins vegar sterkari aðilinn stærstan hluta síðari hálfleiksins og sigldu hægt og rólega fram úr. Þegar síðari hálfleikur var um það bil hálfnaður náði liðið fimm marka forskoti og lítið sem gaf í skyn að Hollendingar myndu koma til baka.

Það breyttist þó fljótt því Hollendingar skoruðu næstu þrjú mörk og minnkuðu muninn aftur niður í tvö mörk. Þeir fengu svo nokkur tækifæri til að minnka muninn niður í eitt mark, en fóru illa að ráði sínu og Norðmenn gengu á lagið.

Norska liðið vann því að lokum mikilvægan þriggja marka sigur, 35-32, og er þar með komið með tvö stig í milliriðili tvö. Noregur situr í fimmta sæti riðilsins með tvö stig, líkt og Slóvenar, og aðeins tveimur stigum á eftir efstu þremur liðinum. Toppliðin tvö, Danmörk og Svíþjóð, mætast þó síðar í kvöld.

Hollendingar reka hins vegar enn lestina án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×