Körfubolti

Teitur: Með því­líkt vopna­búr og finnst gaman að skora

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Remy Martin er frábær leikmaður sem getur bæði skorað sjálfur og búið til færi fyrir aðra.
Remy Martin er frábær leikmaður sem getur bæði skorað sjálfur og búið til færi fyrir aðra. Vísir/Bára

Teitur Örlygsson fór yfir það af hverju Remy Martin er svo illviðráðanlegur inn á vellinum en þessi frábæri bandaríski leikmaður Keflavíkurliðsins hefur spilað afar vel að undanförnu.

Remy Martin var frábær í síðasta leik Keflvíkinga í Subway deild karla og frammistaða hans var tekin fyrir í Subway Körfuboltakvöldi. Martin skoraði 29 stig, tók 11 fráköst og gaf 9 stoðsendingar í sigri Keflavíkur á Íslandsmeisturum Tindastóls.

Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Körfuboltakvöld, vildi fá að vita það hjá sérfræðingum sínum hvað gerir Remy Martin svona góðan í körfubolta?

„Þetta er þvílíkt vopnabúr sem hann er með. Hann er með stórkostlega boltameðferð. Hann er með þetta fyrsta skref, er snöggur og er með ofboðslegt ‚touch',“ sagði Teitur Örlygsson.

„Honum líður betur með það að dræva til vinstri þótt að hann sé rétthendur og klárar ofboðslega vel þar. Síðan er þetta bara að honum finnst gaman að skora. Það er alveg greinilegt því það er alltaf fyrsti valið hjá honum,“ sagði Teitur.

„Hann er óhræddur við að taka yfir þegar Keflavík þarf virkilega á því að halda. Við erum búin að sjá það nokkrum sinnum í vetur þar sem að hann hefur skotið þá inn í leikina,“ sagði Teitur.

„Honum finnst gaman að vera maðurinn og hann er maðurinn í Keflavík“ sagði Stefán Árni og sérfræðingarnir tóku undir það.

Remy vantaði bara eina stoðsendingu í þrennuna í leiknum á móti Stólunum en samherjar hans í Keflavíkurliðinu fóru illa með mörg tækifæri sem hann var að búa til fyrir þá.

Næsta umferð Subway deildar karla fer fram í kvöld en Valsmenn taka þá á móti Keflvíkingum á Hlíðaenda.

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllum um Remy Martin og öll færin sem hann bjó til en urðu ekki að stoðsendingu.

Klippa: Körfuboltakvöld: Hversu góður er Remy Martin?



Fleiri fréttir

Sjá meira


×