Skoðun

Er ráð­herra hafinn yfir lög?

Guðmundur Ingi Kristinsson skrifar

„Traust og virðing Alþingis er áunnið fyrirbæri“, sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og fyrrverandi formaður Vinstrihreyfingarinnar, grænt framboðs, þegar hann flutti síðustu eldhúsdagsræðu sína kvöldið 8. júní 2021. „Það er heiður að vera alþingismaður Íslendinga. Því fólki sem hingað inn er kosið er sýndur mikill trúnaður. Því er falin mikilvægasta samfélagsþjónusta lýðræðisfyrirkomulagsins.“

Í nágrannalöndum okkar bera stjórnmálamenn mikla virðingu fyrir því trausti sem almenningur veitir þeim. Í fyrra sagði Anette Trettebergstuen af sér sem menningar- og jafnréttisráðherra Noregs þegar hún var ásökuð að hafa skipað vini og fyrrverandi flokksystkin í stjórnir ríkisstofnana. Benny Engelbrecht, fyrrverandi samgönguráðherra Danmerkur, tilkynnti um afsögn sína árið 2022 eftir að í ljós kom að hann hafði ekki upplýst danska þingið að fullu um raunverulega kolefnislosun í tengslum við samgönguáætlun, sem hann hafði áður sagt að yrði fyrsta kolefnishlutlausa samgönguáætlunin í sögu Danmerkur. Hér á Íslandi horfum við upp á dvínandi traust til Alþingis og ríkisstjórnarinnar og ráðherrar ríkisstjórnarinnar firra sig ábyrgð þegar í ljós kemur að þeir hafa brotið gegn lögum. Hver á að bera virðingu fyrir lögum ef ekki löggjafinn sjálfur? Hvaða hagsmunir eru í forgangi þegar ráðherrar neita að axla ábyrgð á eigin gjörðum?

Við í Flokki fólksins munum leggja fram vantrauststillögu á hendur Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, þann 22. jan. n.k. hafi ráðherrann þá ekki þegar sagt af sér ráðherradómi. Það er hafið yfir allan vafa að ráðherrann fór ekki að lögum við setningu reglugerðar um hvalveiðar síðasta vor. Við teljum mikilvægt að hún axli ábyrgð. Ráðherrann hefur rýrt orðspor Alþingis og hugsanlega bakað íslenskum skattgreiðendum skaðabótaskyldu upp á hundruð milljóna króna. Við teljum það grafalvarlegt mál þegar handhafi framkvæmdarvalds brýtur lögmætisregluna og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Það er grafalvarlegt mál þegar ráðherra setur reglugerð án þess að hafa heimild til þess í lögum. Hvað þá ef það er gegn betri vitund. Slík háttsemi er valdníðsla. Vegna þess hefur Flokkur fólksins tekið skýra og ákveðna afstöðu gegn núverandi matvælaráðherra.

Ef fulltrúar Alþingis vilja kalla eftir trausti, þurfum við sjálf að sýna starfi okkar tilhlýðilega virðingu. Til að endurreisa traust almennings á Alþingi þurfum við að taka öðruvísi á málunum. Svandís Svavarsdóttir á að segja af sér sem matvælaráðherra. Það er hið eina rétta í stöðunni.

Höfundur er þingflokksformaður Flokks fólksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×