Handbolti

Allt að verða klárt fyrir heims­metið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá handboltavöllinn vera kominn inn í Merkur Spiel-Arena.
Hér má sjá handboltavöllinn vera kominn inn í Merkur Spiel-Arena. Getty/Federico Gambarini

Opnunarleikir Evrópumeistaramótsins í handbolta verða sögulegir því þeir verður spilaður inn á fótboltaleikvangi.

Með því að færa handboltaleikina inn í Merkur Spiel-Arena þá er pláss fyrir 53 þúsund áhorfendur en með því verður sett nýtt heimsmet á handboltaleik.

Leikirnir sem fara fram á fótboltaleikvanginum í Düsseldorf eru báðir í A-riðlinum, fyrst leikur Frakklands og Norður-Makedóníu og svo leikur Þýskalands og Sviss strax á eftir. Leikirnir fara báðir fram á miðvikudagskvöldið.

Síðustu dagar hafa farið í það að undirbúa Merkur Spiel-Arena höllina fyrir það að halda handboltaleik. Það þurfti ekki aðeins að stilla upp vellinum sjálfum heldur voru einnig færanlegar áhorfendastúkur settar upp í kringum völlinn.

Merkur Spiel-Arena er jafnan 54 þúsund manna fótboltavöllur þar sem Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar hans í Fortuna Düsseldorf spila heimaleiki sína í þýsku b-deildinni.

Með því að hýsa þessa tvo leiki á EM í handbolta mun Merkur Spiel-Arena ná því að vera leikstaður fyrir tvö Evrópumót á sama árinu.

Þjóðverjar halda einnig EM í fótbolta í sumar og þar fara fram fimm leikir. Einn af þeim gæti verið leikur hjá íslenska landsliðinu vinni strákarnir okkar umspilið sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×