Innlent

Gikk­s­kjálfti að stærð 4,5 skók suð­vestur­hornið

Atli Ísleifsson skrifar
Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að um hafi verið svokallaðan gikkskjálfta.
Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að um hafi verið svokallaðan gikkskjálfta. Vísir/Vilhelm

Stór skjálfti fannst á höfuð­borgar­svæðinu og víðar um klukkan 10:50 í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni benda fyrstu tölur til að skjálftinn hafi verið 4,5 að stærð og að upptök hans hafi verið við Trölladyngju, nærri Keili, á um fimm kílómetra dýpi. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið.

Einar Bessi Gestsson náttúruvársérfræðingur segir að líklegast hafi verið um að ræða svokallaðan gikkskjálfta vegna spennubreytinga. Hann segir skjálftann ekki hafa verið þar sem kvikusöfnunin við Svartsengi sé. Nú verði skoðað hver áhrifin verða. 

Böðvar Sveinsson náttúruvársérfræðingur segir að nokkrir eftirskjálftar hafi fylgt í kjölfar stóra skjálftans. Sá stærsti hafi mælst 3,8 að stærð klukkan 10:54 og var hann á svipuðum slóðum og sá stóri. 

Tilkynning frá Veðurstofunni sem send var á fjölmiðla klukkan 11:10:

Fyrstu upplýsingar frá náttúruvárvakt Veðurstofunnar vegna jarðskjálfta við Trölladyngju.

Jarðskjálfti af stærð 4,5 mældist nærri Trölladyngju kl. 10:50. Annar skjálfti af stærð 3,9 mældist skömmu síðar kl. 10:54, og fjöldi eftirskjálfta hefur mælst. Skjálftarnir urðu á um 5 km dýpi en unnið er nánari yfirferð. Skjálftarnir fundust víða á Suður- og Vesturlandi.

Staðsetning skjálftanna er um 20 km NNA við Svartsengi, þar sem landris vegna kvikusöfnunar er í gangi.

Kvikuþrýstingur að aukast

Staðsetning skjálftanna er um tuttugu kílómetra norðnorðaustur við Svartsengi, þar sem landris vegna kvikusöfnunar er í gangi.

Veðurstofan greindi frá því í gær að dregið hafi úr hraðanum á landrisinu við Svartsengi. Þetta hafi verið staðfest með GPS gögnum. 

Upptök tveggja stærstu skjálftanna í morgun samkvæmt korti á vef Veðurstofunnar. Upptökin voru nærri Trölladyngju.vísir/sara

„Það að dragi úr hraða landriss er vísbending um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukast líkur á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Þetta er sambærileg breyting á landrisi og fór að sjást í lok dags 15. desember, en þá hófst gos um þremur dögum síðar. Erfitt er þó að fullyrða um hvort að það munstur endurtaki sig.

Fyrstu merki um að kvikuhlaup sé hafið er skyndilega aukning í skjálftavirkni, en slík merki sáust rétt áður en eldgosið hófst 18. desember,“ sagði í færslu á vef Veðurstofunnar í gær.

Myndir frá Veðurstofunni vegna skjálftans klukkan 10:50.Veðurstofan

Hér að neðan má sjá vefmyndavél Vísis frá Grindavík.


Tengdar fréttir

Senni­lega spurning um tíma frekar en hvort

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir stöðuna við Svartsengi vera óbreytta þar sem land hefur haldið áfram að rísa sem sé merki um að verið sé að safna í nýtt kvikuhlaup eða að nýtt gos sé yfirvofandi. „Það er því sennilega spurning um tíma frekar en hvort.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×