Handbolti

Teitur fer til Guð­jóns Vals

Sindri Sverrisson skrifar
Teitur Örn Einarsson kveður Flensburg eftir þetta tímabil.
Teitur Örn Einarsson kveður Flensburg eftir þetta tímabil. Getty/Marius Becker

Handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson hefur ákveðið að skipta um félag í Þýskalandi næsta sumar og gerast lærisveinn Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Gummersbach.

Frá þessu er greint á vef Gummersbach í dag þar sem segir að Teitur hafi skrifað undir samning sem gildi til tveggja ára, frá og með næsta sumri.

Teitur hefur leikið með Flensburg frá því að hann kom frá Kristianstad í Svíþjóð fyrir tveimur árum en í síðasta mánuði var greint frá því að hann færi frá Flensburg næsta sumar, þegar samningur hans rennur út. 

Hjá Gummersbach hittir Teitur ekki aðeins fyrir Guðjón Val heldur einnig félaga sinn úr íslenska landsliðinu, Elliða Snæ Viðarsson. Teitur, sem er örvhent skytta, er þó reyndar ekki í 20 manna hópnum sem Snorri Steinn Guðjónsson valdi á dögunum fyrir EM, en er á 35 manna listanum sem hægt er að notast við á mótinu.

Teitur skoraði sjö mörk í sigri Flensburg á Lemgo í fyrrakvöld, 34-29. Flensburg er í 3. sæti þýsku deildarinnar en Gummersbach í 7. sæti.

„Ég er auðvitað búinn að þekkja Teit lengi og ég er ánægður með að hann komi til okkar og styrki okkar hóp,“ segir Guðjón Valur á heimasíðu Gummersbach.

„Hann er kraftmikill leikmaður, líkamlega sterkur og passar fullkomlega inn í okkar kerfi. Ég er viss um að stuðningsmennirnir munu njóta þess að sjá hann,“ sagði Guðjón.

Sjálfur kveðst Teitur telja að um fullkomið skref á ferlinum sé að ræða. „Ég hlakka mikið til að spila fyrir góðan þjálfara sem ég hef trú á, og í svona hæfileikaríku liði. Ég er sannfærður um að hérna muni margir góðir hlutir gerast á komandi árum,“ sagði Selfyssingurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×