Skoðun

Ríf­lega 2.200 milljarða hagnaður líf­eyris­sjóða síðustu fimm árin

Aðalbjörn Sigurðsson skrifar

Nýlega var þeirri fullyrðingu slengt fram að lífeyrissjóðir landsins hafi tapað um 800 milljörðum króna á árinu 2022. Fullyrðingin virðist hafa eignast sjálfstætt líf og hefur síðustu daga ítrekað verið endurtekin í opinberri umræðu og á samfélagsmiðlum. Vegna þess verður ekki hjá því komist að stíga nú inn í umræðuna og leiðrétta. Einfaldasta leiðin til þess er að fara yfir fjárfestingartekjur lífeyrissjóða undanfarin ár.

Tap árið 2022 en hagnaður árin á undan

Tölur yfir fjárfestingartekjur lífeyrissjóða, sem er hagnaður eða tap af fjárfestingarstarfsemi þeirra, eru birtar reglulega á heimasíðu Seðlabanka Íslands og eru þar öllum aðgengilegar. Tölur fyrir árið í ár liggja augljóslega ekki fyrir og því byrjum við á árinu 2022. Það var vissulega erfitt ár og hreint tap lífeyrissjóðanna af fjárfestingum nam þá um 218 milljörðum króna.

En það þarf að setja þá tölu í samhengi. Sem er að árið áður nam hagnaður lífeyrissjóða landsins af fjárfestingum heilum 934 milljörðum. Hreinar fjárfestingartekjur lífeyrissjóða landsins á árunum 2018 til 2022 námu 2.247 milljörðum króna.

Ávöxtun yfir lengri tíma það sem skiptir máli

Í opinberri umræðu um lífeyriskerfið er oft gripið til þess ráðs að taka einstök dæmi um fjárfestingar sem hafa ekki gengið vel eða slæma afkomu á einstöku ári og draga af þeim miklar ályktanir. Þessi dæmi eru síðan notuð sem rök fyrir að lífeyriskerfið tapi stöðugt fjármunum eða að þeir séu illa reknir. Slíkar fullyrðingar standast ekki skoðun.

Þegar farið er yfir stöðuna heildstætt kemur nefnilega í ljós að meðalraunávöxtun lífeyrissjóða yfir lengri tíma er góð og raunar umfram 3,5% viðmið síðustu áratugina. Lífeyrissjóðir eru langtímafjárfestar sem starfa á fjármálamarkaði. Þar verða alltaf sveiflur sem vissulega þýðir að lífeyrissjóðir tapa stundum á fjárfestingum og að sjóðirnir eru reknir í mínus einstök ár. Sem er ekki gott, en samt eðlilegt. Það sem skiptir máli er að mun fleiri fjárfestingar skila hagnaði en þær sem sjóðirnir tapa á. Árin sem sjóðirnir eru reknir með hagnaði eru líka mun fleiri en þau þar sem þeir skila tapi.

Vandi lífeyrissjóða er að meiri áhugi virðist vera á fréttum með fyrirsögninni „Lífeyrissjóðir töpuðu rúmlega 200 milljörðum árið 2022“ heldur en „Lífeyrissjóðir ná 3,5% ávöxtun yfir tíu ára tímabil“. Þrátt fyrir að frétt undir seinni fyrirsögninni segi mun meira um stöðu lífeyrissjóða og rekstur þeirra heldur en sú fyrri.

Höfundur er forstöðumaður samskipta hjá Gildi-lífeyrissjóði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×