Handbolti

Gísli Þor­­geir spilaði í fyrsta sinn í hálft ár

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson er loksins kominn aftur inn á handboltavöllinn.
Gísli Þorgeir Kristjánsson er loksins kominn aftur inn á handboltavöllinn. Vísir/Getty

Þrjú Íslendingalið tryggðu sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum þýska bikarsins í handknattleik eftir nokkuð þægilega sigra. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék sinn fyrsta leik fyrir Magdeburg síðan í júní.

Gísli Þorgeir hefur verið frá vegna meiðsla síðan í júní þegar hann fór úr axlarlið og var lengi vel talið að hann myndi ekki spila handbolta fyrr en eftir Evrópumótið sem fram fer í janúar. Síðustu vikur hafa hins vegar jákvæðar fréttir borist af bata Gísla Þorgeirs og var hann í leikmannahópi Magdeburg í síðasta leik liðsins.

Í kvöld lék hann síðan sinn fyrsta handboltaleik síðan í júní. Hann skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu fyrir Magdeburg í 39-31 sigri liðsins gegn Wetzlar. Þetta eru afar jákvæðar fréttir fyrir íslenska landsliðið því nú bendir flest til þess að Gísli Þorgeir muni spila með liðinu á Evrópumótinu í Þýskalandi í janúar.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá Magdeburg í kvöld en hann skoraði tíu mörk úr fjórtán skotum. Janus Daði Smárason skoraði fjögur mörk.

Gummersbach tryggði sér einnig sæti í 8-liða úrslitum með 33-28 sigri á Göppingen á heimavelli. Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir lærisveina Guðjóns Vals Sigurðssonar sem var með yfirhöndina frá upphafi til enda.

Þá vann Rhein-Neckar Löwen ellefu marka sigur á Tusem Essen á útivelli. Ýmir Örn Gíslason og Arnór Snær Óskarsson léku báðir með Löwen í kvöld og skoraði Arnór Snær eitt mark.

Það verða því fjögur Íslendingalið í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit því lið Melsungen vann sigur á Leipzig í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×