Körfubolti

Martin sneri aftur í sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin lék 19 mínútur í kvöld.
Martin lék 19 mínútur í kvöld. Mike Kireev/Getty Images

Martin Hermannsson sneri aftur í lið Valencia þegar liðið vann góðan sigur í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta. Þá var Elvar Már Friðriksson í eldlínunni í Grikklandi.

Valencia mætti Murcia í ACB-deildinni í dag. Þar sem staðan var jöfn að lokum fjórum leikhlutum þurfti að framlengja og þar hafði Valencia betur, lokatölur 85-77.

Martin, sem hefur verið frá keppni vegna hnémeiðsla síðan í sumar, sneri aftur í lið Valencia í dag. Alls lék hann 19 mínútur, skoraði 7 stig, gaf 3 stoðsendingar og tók eitt frákast.

Eftir sigur dagsins er Valencia í 4. sæti með 18 stig. Real Madríd er á toppi deildarinnar með 24 stig.

Elvar Már og félagar í PAOK máttu þola 12 stiga tap gegn Panathinaikos í Grikklandi, lokatölur 97-85. Elvar Már átti góðan leik að venju. Hann skoraði 15 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók 3 fráköst.

PAOK er í 7. sæti með fimm sigra í 9 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×