Viðskipti innlent

Tekur við stöðu fram­kvæmdar­stjóra Ís­lensk-ameríska við­skipta­ráðsins

Atli Ísleifsson skrifar
Bergþóra Laxdal.
Bergþóra Laxdal. Aðsend

Bergþóra Laxdal hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins. Stjórn ráðsins samþykkti ráðninguna á fundi sínum í byrjun mánaðarins og hefur Bergþóra þegar hafið störf.

Í tilkynningu segir að Bergþóra hafi áður starfað í hartnær tvo áratugi á aðalræðisskrifstofu Íslands í New York, lengst af sem fulltrúi menningar- og ræðismála ásamt því að sinna viðskiptamálum og daglegum rekstri Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins. 

„Þá sat hún í stjórn Norræna nýsköpunarhússins í Silicon Valley og Samtaka erlendra viðskiptafulltrúa í New York. Bergþóra er með BA próf í sálfræði frá Long Island University, MA próf í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og er að ljúka MBA-námi frá Western Governors University,“ segir um Bergþóru.

Haft er eftir Margréti Harðardóttur, stjórnarformanni Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins, að það sé mikill fengur í starfskröftum Bergþóru. „Bergþóra sem þekkir allar hliðar viðskiptaráðsins frá starfi sínu á aðalræðisskrifstofunni, er vel í stakk búin að leiða starfsemina í breytingunum sem fram undan eru. Þar horfum við sérstaklega til aukins samstarfs við norrænu viðskiptaráðin í Bandaríkjunum og Íslensk-kanadíska viðskiptaráðið. Eftir sem áður verður það okkar áherslumál að styðja við íslensk fyrirtæki sem vilja ná fótfestu í Bandaríkjunum og auka viðskipti ríkjanna og því er það mikið fagnaðarefni að fá svo reynda og dugmikla konu til liðs við okkur,“ segir Margrét. 

Íslensk-ameríska viðskiptaráðið var stofnað árið 1986 með það að leiðarljósi að efla viðskiptasambönd milli Íslands og Bandaríkjanna. Viðskiptaráðið stendur fyrir upplýsingafundum, tengslaviðburðum og ráðstefnum í Bandaríkjunum og aðstoðar Íslensk fyrirtæki sem stefna á bandarískan markað. Viðskiptaráðið hefur verið til húsa á aðalræðisskrifstofu Íslands í New York frá því fyrir aldamót og hefur starfsemin verið undir stjórn starfsmanna aðalræðisskrifstofunnar. Vegna breytinga á fyrirkomulagi aðalræðisskrifstofunnar nú um áramótin verður viðskiptaráðið með skrifstofu með öðrum norrænum viðskiptaráðum í New York í húsakynnum Sænsk-ameríska viðskiptaráðsins á 900 Third Avenue.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×