Handbolti

Þórir Hergeirs í felu­leik eins lengi og reglurnar leyfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson er með lið sem ætlar sér að verða heimsmeistari.
Þórir Hergeirsson er með lið sem ætlar sér að verða heimsmeistari. Vísir/EPA

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, ætlar að nýta sér gildandi reglur til að gefa mótherjunum sem minnstan tíma til að undirbúa sig fyrir næsta leik á HM í handbolta.

Noregur mætir Angóla í fyrsta leiknum sínum í milliriðli í kvöld og Þórir er ekki enn búinn að tilkynna hvaða leikmenn spila leikinn.

Hingað til á heimsmeistaramótinu hefur Þórir tilkynnt leikmannahópinn sinn að morgni leikdags en nú ætlar Selfyssingurinn að breyta um taktík. NRK segir frá.

Það eru leikmenn í norska liðinu sem hafa verið að glíma við meiðsli og Þórir hefur verið að hvíla lykilmenn en fyrirstaðan var ekki mikið fyrir liðið í riðlakeppninni.

Nú fer að reyna meira á norsku stelpurnar á móti sterkari andstæðingum. Það á samt ekki að auðvelda þeim að reikna út norska liðið.

Þórir greindi frá því á blaðamannafundi fyrir milliriðilinn að hann ætli ekki að tilkynna liðið sitt fyrr en klukkutíma fyrir leik. Samkvæmt reglum þá hefur hann rétt á því.

Noregur mætir síðan Slóveníu á morgun og Frakklandi á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×